Jón Gnarr borgarstjóri ætlar að kynna niðurstöður úttektar á starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur á miðvikudag í næstu viku. Fyrst mun hann funda með stjórn Orkuveitunnar en eftir kynna niðurstöður hennar fyrir borgar- og bæjarfulltrúum.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á vb.is í gær var skýrslan afhent Jóni Gnarr í gær. Samkvæmt skipunarbréfi úttektarnefndar er henn ætlað að skýra aðdragandi og orsakir fyrir þeirri stöðu sem rekstur Orkuveitu Reykjavíkur er í nú. Í gær lá ekki fyrir hvenær efni skýrslunnar yrði kynnt borgarfulltrúum. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, neitaði að tjá sig um efni skýrslunnar í samtali við vb.is í gær.

Í tilkynningu frá borgarstjóra segir eftirfarandi:

„Undirritaður, borgarstjórinn í Reykjavík hefur móttekið niðurstöður úttektarnefndar Orkuveitu Reykavíkur sem skipuð var skv. erindisbréfi 23. júní 2011. Í erindisbréfinu er sagt um hlutverk nefndarinnar:

„Að gera óháða úttekt á þeim þáttum sem leiddu til núverandi fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur. Úttektin nái allt frá stofnun fyrirtækisins og beinist sérstaklega að því að skoða hvernig staðið var að mikilvægum skuldbindandi ákvörðunum, þ. á m. aðkomu eigenda, stjórnar og stjórnenda að þeim. Einnig mun úttektin beinast að vinnubrögðum stjórnar, forstjóra og framkvæmdastjórnar og samvinnu þeirra í millum. Þá verða ýmsir þættir innra eftirlits fyrirtækisins metnir og áhættustýring þess skoðuð.”

Nefndin hefur nú skilað niðurstöðum sínum til ábyrgðarmanns, sem er undirritaður. Lagt var upp með ákveðin feril í byrjun um hvernig skilum skyldi háttað og er það eigendafundur sem þarf að taka formlega ákvörðun um það hvernig farið skuli með niðurstöðurnar. Borgarstjóri hefur óskað eftir því við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, sem sér um boðun eigendafunda skv. eigendastefnu gr. 6.2.5, að auka eigendafundur verði boðaður 10. október kl. 15.

Í beinu framhaldi af þeim fundi verður boðað til kynningarfundar með borgar- og bæjarfulltrúum ásamt stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þar sem úttektarnefndin gerir grein fyrir niðurstöðum sínum og skýrslan verður afhent. Í kjölfar kynningarfundarins verður boðað til blaðamannafundar (sama dag) þar sem fjölmiðlum gefst kostur á að spyrja nefndarmenn og fulltrúa af eigendafundi út í niðurstöðurnar. Þar verður jafnframt hægt að nálgast eintök af skýrslunni.“