Borgarstjórinn Jón Gnarr hefur skrifar Sergey Sobyanin, borgarstjóra í Moskvu, bréf þar sem hann lýsir því að að hann vilji deila með borgarstjóranum þeim jákvæðu áhrifum sem Hinsegin dagar og gleðigangan hefur haft á ímynd Reykjavíkur og viðhorf almennings til samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks.

Í bréfinu segir m.a. að orðið hafi mikil viðhorfsbreyting til batnaðar á Íslandi vegna hátíðarinnar sem sé nú ein stærsta útihátíðin í Reykjavík.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fram kemur í tilkynningu frá borgarstjóra, að tilefni bréfaskrifanna séu þær fréttir, að gleðigöngur samkynhneigðra hafi verið bannaðar í Moskvu og vilji Jón Gnarr hvetja kollega sinn til að skipta um skoðun enda séu það skýlaus brot á mannréttindum að gera upp á milli fólks vegna kynhneigðar.

Í bréfinu segir m.a.:

„Gleðigangan hefur valdið viðhorfsbreytingu meðal Reykvíkinga og hefur leitt til framsæknara samfélags – ekki aðeins meðal LBGT fólks (innskot: samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks) heldur meðal allra Íslendinga. Hátíðin hefur einnig vakið athygli á Reykjavík úti um allan heim sem borg mannréttinda. Íslendingar eru stoltir af því að geta sýnt umheiminum að þeir búa í samfélagi þar sem mannréttindi eru í öndvegi.“