„Eins og gefur að skilja er okkur ekki sama hverjir taka við keflinu á þessum tímamótum eða hvernig á því verður haldið,“ segir Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvikur en tilkynnt var í dag að félagið hafi selt Festi hf smásölureksturinn, vöruhótelið Fakka, auglýsingastofuna Expo og hluta af fasteignasafni Smáragarðs. Verslanirnar eru verslanir Krónunnar, Nóatúns og Kjarvals, Elko og Intersport.

Haft er eftir Jóni Helga í tilkynningu um kaupin að það sé mat fjölskyldunnar sem eigi Norvik að nú sé komið að kynslóðaskiptum.

„Í kjölfar þessara viðskipta munum við einbeita okkur að rekstri Byko og tengdra fasteigna, auk erlendrar starfsemi. Á þessum tímamótum viljum við einnig færa því starfsfólki sem hefur starfað fyrir okkur í gegnum tíðina þakkir fyrir þeirra vel unnu störf,“ segir hann.

Festi hf. er í eigu SF V slhf. og eru hluthafar um 30 talsins. Sjóðurinn SÍA II, sem er í rekstri Stefnir, er stærsti einstaki hluthafi félagsins með um 27% hlut. Lífeyrissjóðir eru með um 32% hlut, tryggingafélög og sjóðir 15% og einkafjárfestar um 26%. Eins og áður hefur verið greint frá var Jón Björnsson, fyrrverandi forstjóri Magasin du Nord og Haga.