Að sögn Jóns Þórissonar, forstjóra VBS fjárfestingabanka, ríkir ekki ágreiningur milli þeirra og Fjármálaeftirlitsins (FME) vegna tekjufærslu bankans upp á 9,4 milljarða króna vegna lánveitingar frá fjármálaráðuneytinu. Í Viðskiptablaðinu í dag er bent á að þar sem tekjufærslan forðar félaginu frá því að vera gert upp með tapi þá helst eigið fé bankans einnig mun hærra fyrir vikið.

Afleiðingin er að CAD-hlutfallið svokallaða er rúm 17% en væri ella langt undir lögbundnu lágmarki sem er 8%.

Jón segir að niðurstaða uppgjörs VBS og aðferð við framsetning á tölum sé í samræmi við kröfur FME. Jón benti á að í skýringu no. 63 í ársreikning bankans kæmi fram að þeim væri kunnugt  um efni óinnleiddrar Evróputilskipunar og að FME hefði kynnt það fyrir þeim. Að sögn Jóns snýr þessi tilskipun að því hvað telst til CAD-eiginfjárhlutfalls fjármálafyrirtækja.

“Í þessari tilskipun er verið að fjalla um hluti sem okkur sýnist að eigi ekki við um VBS og þá stöðu sem við erum í. Nefnilega það, að fjármálafyrirtæki sem nýtur lánshæfismats og lánshæfismatið er lækkað, þá vex ávöxtunarkrafa útgefinna fjármálagerninga og vegna áhrifa af hækkun ávöxtunarkröfu má ekki færa ívilnun vegna þegar útgefinna fjármálagerninga í reikninginn,” sagði Jón. Hann benti á að í þessu tilviki snéri dæmið að útgefnum fjármálagerningum sem væru skráðir á markað og ávöxtunarkrafan hefði aukist. Þá væri eðlilegt að núvirða mismuninn á þeim kröfum sem pappírarnir voru seldir á sínum tíma og þeirri nýju kröfu sem hefði myndast vegna lækkunar lánshæfismatsins.

“Þetta teljum við að eigi ekki við um okkur vegna þess að við erum með nýjan lánveitanda sem lánaði fjármuni sem nýttust til greiðslu á eldra láni frá öðrum lánveitanda. En sé það hins vegar þannig að þetta niðurstaðan og hún verði innleidd – sem er alls ekki víst þar sem málið á eftir að fara fyrir alþingi – þá verður sú innleiðing væntanlega með einhverjum skilmálum sem gætu annað hvort falist í aðlögum eða að tilskipunin nái aðeins til þeirra fjármálagerninga sem eftir er að gera. Það er mikil óvissa með þetta og við teljum þetta sé ekki áhyggjuefni í augnablikinu. Okkur er hins vegar kunnugt um efni tilskipunarinnar og við munum bregðast við því ef það verður niðurstaðan,” sagði Jón og tók fram að FME hefði ekki gert við þá neina athugasemdir vegna færslunnar en hins vegar farið með þeim í gegnum efni tilskipunarinnar og hvað hún hefði í för með sér.