Ákvörðun ríkisskattstjóra í skattamáli Stoða er í fullkominni andstöðu við skýrslu skattrannsóknarstjóra, að mati Jón Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi dómara við Hæstarétt. Jón skrifaði þriðju greinina í dag um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að endurákvarða ekki 13 milljarða króna skatt á Stoðir (áður FL Group).

Málið snýst um það hvort FL Group hafi verið heimilt að fresta 50 milljarða króna hagnaði sem varð til vegna hlutabréfasölu árið 2006. Frestunin gerði það að verkum að hagnaður FL Group var nær enginn það ár og því enginn skattur greiddur.

Ritröð um skattamál Stoða

Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
© BIG (VB MYND/BIG)

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri svaraði fyrstu grein Jóns Steinars í gær og birtust þá tvær greinar eftir þá um málið. Skúli Eggert sagði í sinni grein m.a. að rannsókn skattrannsóknarstjóra á málinu hafi verið óvenjulega, hún hafi verið send með bréfi og nokkrum fylgiskjölum en ekki í skýrsluformi eins og áskilið sé í reglugerð. Þá hafi Stoðum ekki verið gefið færi á því að tjá sig um niðurstöður framhaldsrannsóknarinnar í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga og reglugerðarinnar. Þessu vísaði Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri á bug í viðtali við vb.is og sagði ríkisskattstjóra fara með rökleysu.

Jón Steinar segir svargrein Skúla Eggerts í Morgunblaðinu í gær líklega þá fyrstu þar sem hann nefnir röksemdir fyrir ákvörðun sinni að leyfa Stoðum að fresta söluhagnaði af hlutabréfum árið 2006 með þeim áhrifum að á fyrirtækið var ekki lagður tekjuskattur þetta ár þrátt fyrir 44,6 milljarða króna hagnað af rekstri.

Ríkisskattstjóri í andstöðu við niðurstöðu skattrannsóknarstjóra

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri

„Hann hefði auðvitað átt að birta röksemdir sínar í úrskurðinum 16. júní 2011, þegar hann lagði viðbótarskatta á fyrirtækið á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra [...]. Í svari ríkisskattstjóra í Morgunblaðinu er að finna skýringar á gjörðum hans sem ekki fá staðist. Þar skiptir mestu máli að hann telur frestunarheimildina hafa átt við um Stoðir hf. þar sem „uppistaðan í þeim fjárfestingum sem leiddu til söluhagnaðarins sem frestað var“ hafi verið fjárfestingar í flugrekstri og ferðaþjónustu. Þetta væri sambærilegur rekstur og fyrirtækið starfaði sjálft í og því væri um að ræða fjárfestingu aðilans og frestun heimil,“ skrifar Jón Steinar.

Hann heldur áfram:

„Þetta er í fullkominni andstöðu við skýrslu skattrannsóknarstjóra sem taldi þetta fyrirtæki hafa á þessum tíma haft að meginmarkmiði að kaupa og selja hlutabréf. Byggðist þetta meðal annars á svörum allra forsvarsmanna fyrirtækisins sjálfs við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra. Það er eins og ríkisskattstjóri vilji snúa þessu á haus. Raunar vissu allir sem fylgdust með viðskiptalífinu á Íslandi á þessum árum að Stoðir hf. störfuðu ekki við flugrekstur og ferðaþjónustu, heldur var starfsemi félagsins fólgin í að kaupa og selja hlutabréf og hagnast á því. Kannski væri ráð fyrir ríkisskattstjóra að líta á ársskýrslu Stoða hf. fyrir 2006, sem finna má á heimasíðu Kauphallarinnar, og skoða þar listann yfir félögin sem Stoðir hf. keyptu og seldu hlutabréf í það ár.Að því gefnu að fyrirtækið hafi starfað á því sviði sem forsvarsmenn þess töldu sjálfir, var enginn munur á stöðu þess gagnvart frestunarheimildinni og þess fyrirtækis sem um var fjallað í bindandi áliti ríkisskattstjóra frá árinu 2000 og skattrannsóknarstjóri vísaði til er hann taldi frestunarheimildina ekki gilda fyrir Stoðir hf. Hið sama hafði reyndar komið fram í bréfi ríkisskattstjóra sjálfs 13. júlí 2007 til Ernst & Young hf. [...]  Í ljós kemur að rökstuðningurinn er efnislega afar veikur svo ekki sé meira sagt. Hvað sem því líður hefði hann átt að standa þannig að málum að dómstólar skæru úr um efni umræddrar heimildar.“