Bandaríski bankinn JP Morgan hefur ákveðið að minnka áður ákveðnar arðgreiðslur sínar um 87%, úr 38 centum á hvern hlut í 5 cent á hvern hlut en samkvæmt tilkynningu frá bankanum munu 5 milljarðar dala sparast með þessari ákvörðun.

JP Morgan fékk 25 milljarða dala neyðarlán frá bandarískum yfirvöldum fyrir áramót en Reuters fréttastofan hefur eftir talsmanni bankans að ákvörðunin um að greiða mun minni arð en áður hafði verið tilkynnt sé ekki tilkomin vegna lánsins.

Hins vegar sé ljóst að með því að minnka arðgreiðslur muni talsvert fjármagn sparast sem nýta megi til að greiða neyðarlánið til baka sem fyrst auk þess sem bankinn sé með þessu að axla ákveðna samfélagsábyrgð, eins og talsmaðurinn orðar það.

Þá kom fram í tilkynningu bankans að hann standi á traustum grunni og muni ekki þurfa á frekari fyrirgreiðslu að halda frá yfirvöldum. Tap bankans á fjórða ársfjórðungi nam um 700 milljónum Bandaríkjadala samanborið við hagnað upp á 3 milljarða dala árið áður.

Þá hefur bankinn einnig yfirtekið önnur félög en eins og kunnugt er yfirtók bankinn sparisjóðabankann Washington Mutual seint á síðasta ári en þá tók bankinn einnig yfir rekstur Bear Stearns í maí síðastliðnum.