Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrum formaður Hægri grænna, lagði fram kæru til ríkissaksóknara í gær á hendur lögreglunni vegna skýrslu hennar um mótmæli almennings eftir hrunið. Telur hann að freklega sé brotið á friðhelgi einkalífs hans í skýrslunni. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Í skýrslunni er Guðmundur sagður hafa hvatt fólk á netinu til þess að mæta þegar mótmæli voru fyrirhuguð við Íslandsbanka í mars 2010. Samkvæmt Fréttablaðinu segir í kæru lögmanns Guðmundar að „persónunjósnir“ lögreglunnar gagnvart Guðmundi hafi verið löglausar með öllu og freklega hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs hans með því að dreifa síðan upplýsingunum í fjölmiðla.

Persónuvernd hefur þegar lagt spurningar fyrir lögregluna vegna skýrslunnar og hefur hún fengið frest til 11. nóvember til þess að svara.