Lögregla mun ekki rannsaka hvort dómari hafi brotið hegningarlög þegar hann heimilaði húsleit hjá Samherja og dótturfélögum þess fyrir tveimur árum. Fjallað er um málið á vef RÚV.

Polaris Seafood, dótturfélag Samherja, kærði í sumar Ingveldi Einarsdóttur, settan hæstaréttardómara, til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ingveldi var gefið að sök að hafa brotið almenn hegningarlög þegar hún heimilaði húsleit og að lagt yrði hald á gögn hjá Samherja og dótturfélögum árið 2012. Þá var hún dómari við héraðsdóm Reykjavíkur.

Lögreglan vísaði kærunni frá, en þá skaut Polaris Seafood ákvörðun lögreglu til ríkissaksóknara. Fréttastofa RÚV hefur eftir ríkissaksóknara í dag að niðurstaða lögreglu um að vísa kærunni frá hafi verið staðfest. Ekki hafi þótt ástæða til að hefja rannsókn.