Fasteignarþróunarfélagið Kaldalón hefur gengið frá sölu lóða undir allt að 200 íbúðir í landi Smárahvamms (Hnoðraholti) í Garðabæ til félagsins Reir Verk ehf sem er í eigu hjónanna Rannveigar Eirar Einarsdóttur og Hilmars Þórs Kristinssonar sem hvort um sig eiga tæplega 41% hlut og Hollendingsins Bernhard Jakob Strickler sem á ríflega 18% hlut.

Kaldalón hefur verið með uppi áform um byggð á fimm hektara landi i Hnoðraholti í gegnum Þróunarfélagið Hnoðraholt ehf.. Í tilkynningu frá Kaldalóni segir að kaupsamningurinn sé ýmsum fyrirvörum, svo sem endanlegu samþykki stjórna samningsaðila og stjórnar Kaldalóns sem og fjármögnunaraðila.

Salan tekur til þess hluta verkefnisins sem ætlaður er fyrir íbúðarhúsnæði en Kaldalón mun halda áfram á þeim hluta verkefnisins sem ætlaður er fyrir atvinnuhúsnæði.

Í árshlutauppgjöri Kaldalóns fyrir fyrri helming ársins var bókfært virði Þróunarfélagsins Hnoðraholts ehf., ríflega 1,3 milljarðar króna. Kaldalón segir að verðmæti eignarhluts félagsins verði áfram áþekkt. Hins vegar muni fjárbinding og skuldir Kaldalóns minnka umtalsvert en sjóðsstreymi taka óverulegum breytingum.

Eftir viðskiptin er Kaldalón með framkvæmdir í undirbúningi á um 700 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Stærsti hluthafi Kaldalóns er Strengur Holding ehf., sem jafnframt er meirihlutaeigandi Skeljungs.