Tony Shearer, sem var forstjóri breska bankans SInger & Friedlander þegar Kaupþing keypti bankann árið 2005, segir bresk stjórnvöld ekki hafa lært neitt af falli Kaupþings og Landsbanka. Í bréfi sem hann sendir The Daily Telegraph segir Shearer það tímabært að breska fjármálaeftirlitið vinni skýrslu um fall íslensku bankanna.

„Þá myndum við öll læra eitthvað og ríkisstjórn og eftirlitsaðilar myndi vita hvernig koma ætti í veg fyrir að þetta gerist aftur,“ segir í bréfinu sem var sent blaðinu skömmu eftir að Tchenguiz-bræður voru, auk nokkurra til viðbótar, handteknir vegna falls Kaupþings.