Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur óskað eftir upplýsingum um þróun verðlags á olíumarkaði frá Samkeppniseftirlitinu og Neytendastofu.

Tilefnið er að viðskiptaráðuneytinu hafa að undanförnu borist ábendingar frá samtökum neytenda og fleiri aðilum vegna þróunar á eldsneytisverði.

„Bent hefur verið á að smásöluverð á bifreiða- og vélaeldsneyti hafi ekki fylgt að fullu nýlegum lækkunum á heimsmarkaðsverði á hráolíu eða innflutningsverði á eldsneyti,“ segir á vef ráðuneytisins.

„Þar af leiðandi hafi álagning í olíuverslun farið hækkandi síðustu mánuði.“

Þau olíufélaganna sem hafi svarað ofangreindum ásökunum hafi hins vegar dregið þær í efa, ella skýrt aukna álagningu með hækkun rekstrarkostnaðar.

„Þar sem hér er um að ræða brýnt hagsmunamál fyrir almenning og skoðanir eru mjög skiptar um staðreyndir og skýringar telur ráðuneytið nauðsynlegt að skýrara ljósi verði varpað á staðreyndir málsins.“