Stjórn Askar Capital óskaði í dag eftir því að félagið færi í slitameðferð. Stjórn Avant, dótturfélags Askar, óskað jafnframt eftir því að Fjármálaeftirlitið skipaði bráðabirgastjórn félagsins.

„Það var ljóst þegar gengisdómurinn féll að það yrði mikið högg. Við væntum þess samt að við næðum samningum við kröfuhafa. Núna fyrir helgina þá var orðið ljóst að óvissan, meðal annars um hvaða vexti verða notaðir, væri það mikil að það væri óráð fyrir stjórnir félaganna að óska eftir fresti þar til þeirri óvissu létti. Þannig að þetta var í raun ákvörðun eftir að kalt mat hafði verið lagt á stöðuna núna um helgina," segir Benedikt Árnasón forstjóri Askar Capital.

Eignir rýrnuðu eftir dóm

Í fréttatilkynningu frá Askar kemur fram að eignir Avant voru metnar á um 23 milljarða króna í lok maí síðastliðinn. Eftir dóm Hæstaréttar 16. júní eru eignir Avant metnar á 9 til 13 milljarða króna eftir því hvaða vaxtaviðmiðun er notuð.

„Vegna óvssu um vaxtaútreikning gengislána hafa kröfuhafar ekki náð niðurstöðu um fjárhagslega endurskipulagningu Avant. Gert er ráð fyrir að niðurstaða fáist þegar þeirri óvissu léttir. Þar sem eiginfjárstaða félagsins er neikvæð um að lágmarki 10 milljarða og endurskipulagning óvissu háð, telur stjórn sig ekki hafa umboð til áframhaldandi setu í félaginu og hefur óskað eftir við Fjármálaeftirlitið að það skipi félaginu bráðabirgðastjórn á meðan endurskipulagning þess stendur," segir í tilkynningu.

Askar líka í vanda

Staða Askar Capital var mjög háð afkomu Avant. Eignir þess voru metnar á um 10 milljarða króna í lok maí síðastliðinn og skuldir þess á 6,5 milljarða. Eiginfjárstaðan var því jákvæð um 3,5 milljarða samkvæmt tilkynningu. „Askar Capital á kröfu á Avant sem metin var á 7 milljarða í lok maí. Þessi krafa gjaldfærist að fullu eftir dóm Hæstaréttar og því verður eiginfjárstaða félagsins neikvæð um 3,5 milljarða. Þar sem ekki liggur fyrir samkomulag við kröfuhafa um endurskipulagningu þess hefur stjórn Askar samþykkt að óska eftir slitameðferð á félaginu," segir í tilkynningu.