Kanadísk dagblöð virðast nú í auknu mæli vera að uppgötva gildi dánarfregna og minningargreina sem Morgunblaðið hefur verið frægt fyrir í gegnum tíðina. Fyrir nokkrum árum heyrði slíkt til undantekninga í kandadískum blöðum en er nú að verða að föstum liðum af fjárhagsástæðum.   Fjallað er um þetta mál á vefsíðu Telegraph og þykir merkileg tíðindi og m.a. bent á blöð eins og Globe And Mail. Fyrir 20 til 30 árum hafi dánartilkynningar í dagblöðum heyrt til undantekninga í Kanada. Þá hafi þær yfirleitt verið í örfáum orðum og án myndar. Nú sé hins vegar algengt að dánartilkynningar og minningarorð séu 60 línur eða meira og þá fylgi gjarnan mynd með. Þá sé þessu fyrirbæri nú tekið sem viðtekinni venju í þarlendum blöðum.   Talið er líklegt að útfarastofnanir hafi kynnt undir þessari þróun, enda augljósir viðskiptahagsmunir í húfi. Þá sé þessi þjónusta blaðanna heldur ekki ókeypis og í raun sé um að ræða einu greinarskrif blaðanna fyrir utan beinar auglýsingar sem greiða þurfi fyrir birtingu á. Það þurfi t.d. að borga 12 dollara hverja línu í birtingu auk 200 dollara fyrir birtingu á mynd. Algengt verð fyrir birtingu á dánartilkynningu og minningargrein sé 600 dollarar og ekki óalgengt að það fari yfir 1.000 dollara.