Kári Stefánsson bregst á Facebook síðu sinni við frétt sem Viðskiptablaðið birti fyrir stuttu. Frétt Viðskiptablaðsins greindi frá því að Kári hefði verið í viðtali við fjölmiðlarisann NBC þar sem hann sagði „Það er enginn Guð, það er bara DNA“ (e. "There is no God, there is only DNA"). Kári segir:

„Það er stundum vandlifað í þessum heimi hvort sem hann var af Guði skaptur eða varð bara til af sjálfum sér. Það er sérstaklega áþreifanlegt hjá þeim sem af klaufaskap sínum eða athyglissýki (eins og ég) koma sér milli tannanna á fjölmiðlum þessa lands sem eru agalausar skepnur og mannýgar.

Ég varð fyrir því um daginn að veita bandaríska fjölmiðlarisanum NBC viðtal um langlífi Íslendinga. Í því viðtali sagði ég að allt líf á jörðu ætti rætur sínar í DNA og nær allur fjölbreytileiki mannsins ætti rætur í fjölbreytileika í röðum níturbasa í því hinu sama erfðaefni. Ég sagði einnig að vegna þess að heilinn sé líffæri sem er búið til af upplýsingum í erfðaefninu og vegna þess að starfsemi heilans eigi rætur sínar í byggingu hans sé sá möguleiki fyrir hendi að við gætum erft hugsanir og alls konar afstöðu til tilverunnar. Ég klikkti síðan út með því að segja að þess vegna mætti leiða að því rök að það væri enginn frjáls vilji, enginn Guð heldur bara DNA.“

Kári ræðir einnig um þátt Viðskiptablaðsins í því að vekja athygli á málinu:

„Viðskiptablaðið greip þetta sem sendingu af himnum ofan og flutti frétt af viðtalinu sem mátti ekki lesa öðru vísi en svo að þarna hefði Kári Stefánsson opinberað að hann sé trúlaus villimaður. Og fréttin varð enn einn kapítulinn í sögunni sem þeir eru að skrifa um vonda karlinn sem hefur meðal annars sannfært í það minnsta 78 þúsund Íslendinga um að það þurfi að setja mikið nýtt fé í heilbrigðiskerfi þeirra sem að mati blaðsins er hrein fásinna.“

Kári áréttar að lokum að hann sé vísindamaður sem vinnur að því að sækja nýjan skilning á því hverngi mannlegur fjölbreytileiki verður til.

„Ég kann ekkert svar við spurningunni um það hvað hafi komið þessu öllu af stað. Var það Guð og hvað er þá guð? Er hann persóna sem situr uppi í himninum og horfir niður eða er hann bara kærleikur í öllu og öllum sem hefur einhvern vegin áhrif á framvindu mála. Ef ég ætti Guð væri hann af seinni gerðinni og svei mér ef ég aðhyllist ekki trúarsetningu Steingríms Thorsteinssonar þegar hann segir:

Trúðu á tvennt í heimi
tign sem æðsta ber
Guð í alheimsgeymi
Guð í sjálfum þér

Kannski það sé nóg til þess að ég teljist trúaður og kannski ekki.“