„Íslensk erfðagreining á ekkert í NextCode Health," segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í tengslum við umfjöllun Viðskiptablaðsins um fyrirtækið. Hið rétta er að Amgen, sem keypti rekstur Íslenskrar erfðagreiningar fyrir jól í fyrra fyrir rúma 50 milljarða króna, á um 10% hlut í fyrirtækinu.

Hlutur Amgen í NextCode er til kominn vegna notkunar NextCode á hugbúnaði Íslenskrar erfðagreiningar, að sögn Kára.

Eins og fram kom á vb.is í gær og í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun er NextCode sprotafyrirtæki sem varð til út úr Íslenskri erfðagreiningu. Kári vill árétta að NextCode er sjálfstætt fyrirtæki. Það kaupi greiningarvinnu og túlkun niðurstaðna af Íslenskri erfðagreiningu og markaðssetur sjúkdómsgreiningu byggða á rannsóknum ÍE á erfðamengi mannsins til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum.

Hannes Smárason, fyrrverandi aðstoðarforstjóri ÍE og fyrrverandi forstjóri FL Group, er forstjóri NextCode. Eigendur þess eru bandarísku áhættufjárfestingarsjóðirnir Polaris Partners og ARCH Venture Partners. Þeir hafa fjárfest í Íslenskri erfðagreiningu frá fyrstu dögum fyrirtækisins og hafa þeir nú lagt 15 milljónir dala, jafnvirði tæpra 1,8 milljarða íslenskra króna, til NextCode.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .