Þáttur eignarhaldsfélag ehf. hefur keypt 66,6% hlutafjár í Sjóvá af Íslandsbanka hf. fyrir 17,5 milljarða króna, sem samsvarar 26,2 milljarða króna verðmæti Sjóvá. Þáttur eignarhaldsfélag ehf. er í eigu fjárfestingarfélagsins Milestone ehf. Íslandsbanki mun áfram eiga 33,4% hlutafjár í Sjóvá.

Við söluna innleysir bankinn 3,4 milljarða króna hagnað fyrir skatta af selda hlutnum. Íslandsbanki keypti allt hlutafé í Sjóvá fyrir átján mánuðum á 19,4 milljarða króna, en Sjóvá hefur greitt bankanum 3,5 milljarða króna í arð frá þeim tíma.

Íslandsbanki og Sjóvá munu áfram vinna saman að því að bjóða banka- og vátryggingaþjónustu til hagsbóta fyrir viðskiptavini og byggir samstarfið á gildandi samningi milli félaganna. Viðskiptavinir félaganna geta þannig fengið alla fjármálaþjónustu á einum stað og notið þess í kjörum. Gengið hefur vel að ná fram auknum viðskiptum með samstarfinu.

Samhliða sölunni hefur verið ákveðið að stofna öflugt fjárfestingarfélag í eigu Íslandsbanka, Þáttar eignarhaldsfélags og Sjóvá. Félaginu verður ætlað að auka verðmæti fyrir eigendur sína með fjárfestingum í skráðum og óskráðum hlutabréfum, bæði í eigin verkefnum og í samstarfi við aðra fjárfesta. Starfsemi félagsins verður kynnt sérstaklega síðar.

Salan styrkir eiginfjárgrunn Íslandsbanka um ríflega 15 milljarða króna. Miðað við núverandi eiginfjárstefnu bankans skapar þessi hækkun, að öðru óbreyttu, svigrúm fyrir mögulegan 200 milljarða króna útlánavöxt. Þetta hefur gríðarmikla þýðingu fyrir getu bankans til að framfylgja núverandi stefnu um vöxt erlendis með áherslu á Noregsmarkað.

Styrking eiginfjárgrunnsins stafar að mestu af því að öll viðskiptavild vegna Sjóvá hverfur úr bókum félagsins, en hún var 10,8 milljarðar í lok fyrsta ársfjórðungs 2005. Jafnframt hefur áhrif til hækkunar eiginfjárgrunns bankans, að frádráttur vegna lágmarksgjaldþols vátryggingafélagsins við CAD útreikning lækkar hlutfallslega.

Með sölunni nær bankinn samhliða fram tveimur lykilmarkmiðum. Annars vegar leysir bankinn úr læðingi stóran hluta þeirrar eiginfjárbindingar sem fólst í fullu eignarhaldi í Sjóvá. Hins vegar er með þriðjungseignarhlut og samstarfssamningi við Sjóvá tryggð áframhaldandi samþætt þjónusta við viðskiptavini á sviði banka- og tryggingalausna.

?Þetta er afar ánægjuleg niðurstaða fyrir Íslandsbanka," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka. ?Hagnaður bankans af sölunni er verulegur, auk þess sem vaxtarmöguleikar aukast. Íslandsbanki verður eftir sem áður stór hluthafi í Sjóvá, öflugasta vátryggingarfélagi landsins, og verður áfram unnið að samstarfi um bankaþjónustu og vátryggingar í þágu viðskiptavina. Síðast en ekki síst skapast spennandi tækifæri með stofnun fjárfestingarfélags sem verður í eigu Íslandsbanka, Sjóvá og Þáttar eignarhaldsfélags."

Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone ehf. og Þáttar eignarhaldsfélags ehf.: ?Þetta er ögrandi og spennandi verkefni. Sjóvá er rótgróið félag með stóran hóp traustra viðskiptavina. Við viljum efla starfsemi þess með margvíslegum hætti og lykilatriði í þeim efnum er að standa vörð um forystuhlutverk Sjóvá með framúrskarandi þjónustu. Áframhaldandi samstarf við Íslandsbanka mun skipta okkur miklu máli og sömuleiðis hið sameiginlega fjárfestingarfélag okkar sem ætlað er að auka verðmæti fyrir eigendur sína með fjárfestingum í skráðum og óskráðum hlutabréfum, bæði í eigin verkefnum og í samstarfi við aðra fjárfesta."

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppnisstofnunar.