Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone og fv. stjórnarformaður Sjóvár, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann gagnrýnir fjölmiðlaumfjöllun um málefni Milestone, sem hafi í mörgum atriðum verið röng. Hann tiltekur sérstaklega fréttaflutning Stöðvar 2 um að hann hafi flutt mikið fé í erlend skattaskjól á sama tíma og ríkið hafi tekið yfir Glitni sl. haust. Þetta sé uppspuni og lygi frá rótum.

Arðgreiðslur til eigenda 1,1 milljarður króna

Karl segir einnig að umfjöllun um arðgreiðslur Milestone-samstæðunnar hafi verið villandi. Reginmunur sé á arðgreiðslum frá dótturfélaginu Sjóvá til móðurfélagsins Milestone annars vegar og arðgreiðslum til eigenda Milestona hins vegar, en Milestone hafi verið fjölskyldufyrirtæki í eigu fjölskyldu Karls. Arðgreiðslur til eigenda á tímabilinu 2004-2007 hafi numið samtals 1,1 milljarði króna af 58,5 milljarða hagnaði. „Arðgreiðslur til eigenda Milestone námu því samtals 2% af uppsöfnuðum hagnaði áranna sem verða að teljast mjög hóflegar arðgreiðslur,“ segir hann.

Unnu eigendur og starfsmenn gegn eigin hag eða hrundi kerfið?

Um umræður í samfélaginu og fjölmiðlaumfjöllun segir Karl: „Það er mikil reiði í samfélaginu en ég bið menn að staldra við og spyrja sig nokkurra spurninga. Er það útilokað að eigendur og starfsmenn Milestone og dótturfélaga séu venjulegt fólk sem hafi unnið vinnu sína eftir bestu getu og vitund? Er ekki ólíklegt að eigendur Milestone hafi með skipulögðum hætti unnið að því að knésetja sín eigin fyrirtæki og eigin fjárhag? Er líklegt að starfsmenn leiki sér að því að tapa fjármunum og eyða starfsöryggi sínu í leiðinni? Gerir einhver slíkt af ásetningi? Eða er hugsanlegt að kerfið í heild hafi hrunið yfir samfélagið vegna alþjóðlegrar kreppu og fjöldamargra og ótengdra mistaka í íslensku fjármálakerfi?“