Heilbrigðisráðuneytið (HRN) staðfesti nýverið ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) um að stöðva dreifingu á poppolíu. Ástæðan fyrir stöðvuninni var sú að olían innhélt litarefnið karótín en því má aðeins blanda saman við feiti en ekki olíur.

Á haustmánuðum 2019 tilkynnti HER dreifingaraðila poppolíunnar að til skoðunar væri að stöðva dreifingu hennar. Samskipti áttu sér stað vegna þessa og var ákvörðun um slíkt tekin á síðasta degi febrúarmánaðar í fyrra. Sú ákvörðun var kærð í maí sama ár og þess óskað að niðurstaða HER yrði felld úr gildi.

Innflytjandi vörunnar byggði á því að þarna væri á ferð feiti en ekki olía og því byggði ákvörðunin á röngum lagagrundvelli. Afurðin væri í fljótandi formi í hita yfir 24,4°C en í föstu formi í lægra hitastigi. Línan milli feiti og olíu væri þunn en vanalega væri miðað við að fita teldist feiti ef hún væri í föstu formi við stofuhita. Öðrum kosti væri olía á ferð. Stofuhiti væri síðan aftur teygjanlegt hugtak en vanalega væri miðað við 22°C plús, mínus tvær gráður.

Codex Alimentarius réð úrslitum

Í athugasemdum HER var ekki fallist á þetta. Varan væri, líkt og umbúðirnar gæfu til kynna, bragðbætt, lituð kókosolía. Ekki væri aðeins hægt að miða aðeins við form fitunnar við stofuhita enda myndi það ekki aðeins ráðast af magni mettaðra fitusýra heldur einnig af stærð fitusameinda. Því færi fjarri að varan gæti talist feiti enda varan jurtaolía, rík af mettaðri fitu og með hátt bræðslumark. Feiti væri aftur á móti almennt á föstu formi og oft meira unnin en olía.

„Fyrir liggur að varan inniheldur mikið magn af mettaðri fitu en slíkar afurðir hafa gjarnan hærra bræðslumark. Varan hefur þ.a.l. sambærilega eðliseiginleika og t.a.m. dýrafita en jafnframt aðrar jurtaolíur á borð við pálmaolíu og pálmakjarnaolíu. Þá verður einnig að horfa til þess að fitusýrusamsetning vörunnar veldur því að við stofuhita (20-25°C) er hún á föstu formi en fyrir ofan það hitastigsbil er hún fljótandi. Ráðuneytið telur að auki að ekki verði hjá því komist að líta til skilgreiningar á kókosolíu samkvæmt staðli Codex Alimentarius um jurtaolíur af tilteknum uppruna, sem Ísland er aðili að, en samkvæmt þeim staðli telst kókosolía vera jurtaolía,“ segir í niðurstöðu ráðuneytisins.

Samkvæmt því væri þarna olía á ferð en ekki feiti. Þegar af þeim sökum taldi HRN rétt að staðfesta ákvörðun HER um að stöðva dreifingu olíunnar enda gengi ekki að hún innihéldi karótín samkvæmt reglugerðinni.