Kársneshverfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, eða allt frá árinu 2012 er núverandi aðalskipulag Kópavogsbæjar fyrir tímabilið 2012-2024 tók gildi. Unnið hefur verið að því að breyta Kársnesinu úr iðnaðarsvæði yfir í íbúahverfi.

„Í neðri byggðum hefur Kársnesið verið í uppbyggingu í þónokkur ár og skipulagið tekið breytingum í áföngum. Þarna hefur stór iðnaður verið að víkja samfara því sem fjölbreytt þjónusta á svæðinu hefur verið að rísa, eins og kaffihús, veitingastaðir og auðvitað Sky Lagoon, sem bæjarbúar njóta sannarlega góðs af," segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Gert er ráð fyrir að íbúðum á Kársnesi fjölgi um 1.390 á tímabilinu 2019-2040. Stefnt er að því að klára uppbyggingu á svæðinu á næstu misserum. Stór þáttur í því sé hönnun á Kársneshöfninni og Fossvogsbrúin.

„Nú stefnum við á að klára uppbygginguna á Kársnesinu, við erum að uppfæra heildarsýnina fyrir þróunarsvæðið vestast á nesinu og inn í því verkefni er m.a. hönnun á Kársneshöfninni. Markmiðið er að hún verði yndishöfn með til dæmis kaffihúsi, gufubaði og sjósundi svo dæmi séu tekin. Okkur langar að fá íbúana með okkur í hugmyndavinnu og við vonumst til að sú vinna hefjist á næstu vikum. Við viljum tryggja hafnarsvæði sem býður upp á fjölbreytta þjónustu, verslun og afþreyingu í bland við íbúðabyggð. Kársnesið verður að mínu mati miðpunktur höfuðborgarsvæðisins sem verður eftirsóknavert að búa og starfa á með tengingu við Fossvogsbrúna sem við áætlum að verði tilbúin á árinu 2026 ef allt gengur eftir," bætir Ásdís við.

Nánar er rætt við Ásdísi í Fasteignablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.