Hvað eiga Katrín Jakobsdóttir, Kylie Jenner, Rihanna, Serena Williams og Angela Merkel sameiginlegt? Að mati Business Insider eiga þær allar heima á lista yfir 35 áhrifamestu konur heimsins.

Á listanum er að finna konur á öllum aldri og úr fjölbreyttum greinum. Sú yngsta á listanum er baráttukonan Greta Thunberg á meðan sú elsta er Elísabet II, Englandsdrottning.

Fjallað er um afrek og einkenni hverrar konu í listanum og um Katrínu segir að hún hafi gegnt stöðu forsætisráðherra frá árinu 2017 og að hún sé formaður Vinstri Grænna. Nefnt er að hún sé önnur konan til þess að gegna embætti forsætisráðherra á eftir Jóhönnu Sigurðardóttur og að Katrín sé ekki fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Þá segir einnig að hún sé umhverfisverndarsinni og stefni að því að gera Ísland kolefnishlutlaust fyrir 2040.