„Þegar við horfum til þeirra kannana sem eru að mæla hvað fólki finnst mikilvægt þá er ég ekki sátt við þetta fylgi. Það er erfitt að skýra það,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - grænt framboð (VG), Hún var í viðtali í sjónvarpsþættinum Alþingiskosningar 2013 - Forystusætið á RÚV í kvöld þar sem hún ræddi m.a. um stefnu flokksins í aðdraganda kosninga til Alþingis 27. apríl næstkomandi. Dregið hefur úr fylgi við VG í skoðanakönnunum upp á síðkastið. Í könnun MMR sem birt var í dag mældist flokkurinn með 6,1% fylgi. Í fyrri könnun MMR var flokkurinn með 8,1% fylgi. Fyrr í kvöld sagðist Katrín óttast að VG tapaði öllum sínum þingsætum og detti út af þingi með minna en 5% fylgi.

Katrín skýrði fylgistapið af því að dregið hafi úr stuðningi við stjórnarflokkana auk átaka innan VG sem kunni að hafa haft neikvæð áhrif á hann.

Þegar Katrín var spurð að því hvort kjósendur séu að hafna stefnu VG svaraði Katrín:

„Þegar við sjáum hvað fólki finnst, þegar afgerandi stuðningur kemur við stefnu okkar, þá undrar það mig að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur er með meira í könnunum. Nema við séum bara svona leiðinleg, sem kann að vera,“ svaraði hún.