„Ég veit ekki hvort það þjóni kröfuhöfunum einhverju að vera hér fastir með fjármuni í fjármagnshöftum. Við þurfum að teikna upp einhverja útflæðisáætlun sem gengur upp samhliða losun fjármagnshafta,“ segir Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.

Eins og vb.is greindi frá fyrr í dag er ráðuneytið ásamt fleirum að leggja grunninn að nokkrum sviðsmyndum af því hvernig hægt er að losa um snjóhengjuna svokölluðu í hagkerfinu og áhrifum þess á fjármálastöðugleika. Undir eru kvikar krónur sem festust inn í kerfinu við innleiðingu gjaldeyrishafta, áhrif greiðslna inn á skuldabréf í eigu erlendra aðila, skilyrta skuldabréf Landsbankans og kröfur erlendra aðila á föllnu bankanna.

Talið er að kviku krónurnar svokölluðu, snjóhengjan samkvæmt þröngri skilgreiningu, nemi um 400 milljörðum króna. Ef við það er bætt afborgunum af erlendum skuldabréfum, nafnvirði krafna kröfuhafa í þrotabú föllnu bankana og skilyrtu skuldabréfi Landsbankans fer upphæðin í 1.300 til 1.400 milljarða króna. Það er snjóhengjan samkvæmt víðri skilgreiningu.

Snýst ekki um að taka harðar á kröfuhöfum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafa báðir talað fyrir því að tekið verði harðar á kröfuhöfum en hingað til hefur verið gert. Bjarni sagði í samtali við Morgunblaðið fyrir rúmri viku að meginatriðið sé að láta erlenda kröfuhafa, sem komu flestir hér inn eftir hrunið til að stórgræða á ástandinu, halda landinu í heljargreipum hafta. „Það þarf að afskrifa stóran hluta þessara eigna með einum eða öðrum hætti,“ sagði hann.

Katrín segir í samtali við vb.is málið ekki snúast um að taka harðar á kröfuhöfum.

„Þetta snýst um að verja íslenska hagsmuni og snýst um það að uppgjörið verði með þeim hætti að hér skapist ekki þröng staða fyrir okkur inn í framtíðina. Ég held að þetta snúist líka að miklu leyti um sameiginlega hagsmuni,“ segir hún.