Katrín Olga Jóhannesdóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stjórnunarsviðs Skipta, móðurfélags Símans, Skjásins, Mílu, Já og fleiri félaga. Hlutverk hennar verður að bera ábyrgð á samþættingu stefnumörkunar innan Skipta og dótturfélaga, að fylgja eftir markmiðum og aðgerðaáætlunum og styðja við uppbyggingu á skipulagi félagsins.

Í tilkynningu vegna ráðningarinnar segir að Katrín Olga hafi starfað hjá Símanum undanfarin 5 ár, fyrst sem framkvæmdastjóri Markaðssviðs og síðan sem framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs. Þar áður var hún framkvæmdastjóri Navision á Íslandi. Katrín Olga er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og MSc í rekstrarhagfræði frá Odense Universitet.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, segir í tilkynningunni að það sé mikill styrkur fyrir Skipti að fá Katrínu Olgu í þetta starf innan félagsins.  “Katrín Olga hefur starfað hjá Símanum síðastliðin 5 ár og hefur mikla þekkingu á fjarskiptamarkaðnum.  Framundan eru spennandi tímar hjá Skiptum og ljóst að starfsemi félagsins mun breytast talsvert með aukinn sókn utan Íslands. Félagið hefur mótað sér skýra stefnu sem mun halda áfram að þróast samhliða vexti fyrirtækisins. Katrín Olga mun leiða stefnumörkunarvinnuna og við væntum mikils af hennar störfum.”

Skipti hafa vaxið mikið undanfarið og er Stjórnunarsvið nýtt svið innan samstæðunnar. Samhliða verður sett upp stefnumótunarnefnd innan fyrirtækisins sem í eiga sæti, auk Katrínar Olgu, Brynjólfur Bjarnason, forstjóri og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs, samkvæmt því sem segir í tilkynningunni.