Kaup MP banka á Íslenskum verðbréfum sem tilkynnt voru í sumar hafa tekið lengri tíma en búist var við. Tilkynnt var um kaupin í maí. Einar Ingimundarson var framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa þegar greint var frá því að MP banki ætli að kaupa félagið. Hann lét af störfum í dag.

Fram kom í tilkynningu frá Íslenskum verðbréfum í dag að Sveinn Torfi Pálsson, forstöðumaður eignastýringar Íslenskra verðbréfa, hafi tekið við stöðu Einars tímabundið þar til niðurstaða liggur fyrir um söluferlið.

Þegar VB.is fjallaði um málið í sumarbyrjun kom fram að hluthafar Íslenskra verðbréfa voru fyrir kaupin ellefu talsins og áttu sex þeirra meira en 5% hlut. Þeir voru Íslandsbanki með 27,5%, Íslensk eignastýring með 21,8%, Stapi lífeyrissjóður með 15%, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga með 14,5%, Lífeyrissjóður Vestfirðinga með 10,3% og Eignasafn Seðlabanka Íslands með 6,4%.

Hlutir Íslandsbanka og ESÍ hafa verið í söluferli frá því í febrúar í fyrra.