Félagið Sia, sem er dótturfélag íslenska fasteignafélagsins SMI, hefur gengið frá kaupum á Valdeka verslanamiðstöðinni í Jelgava, fjórðu stærstu borg Lettlands. Verslanamiðstöðin er um það bil 14.000 fermetrar að stærð og þekur um fimm hektara lands. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Vladeka verslanamiðstöðin er ein sú stærsta í Jelgava og þar eru nú 28 verslunarfyrirtæki með aðstöðu. Þar má nefna merki eins og Maxima, Nelss, Drogas, Chilli Pizza og Narvesen.

SMI er í eigu sömu aðila og eiga Rúmfatalagerinn og reka verslanir undir nafni JYSK víða um heim. Þessir aðilar reka nú 21 verslun í Eystrasaltslöndunum. Það er ætlun SMI að gera umtalsverðar breytingar á verslanamiðstöðinni og vinna að stækkun á henni. Fyrsti áfangi stækkunarinnar hefst innan skamms með endurbótum á húsnæðinu. Að sögn Davíðs Freys Albertssonar, framkvæmdastjóra SMI, er það markmið verslunarfélaga samstæðunnar að vera í eigin húsnæði og er nú um það bil 20 til 30% af húsnæði félagsins undir verslanir fyrrgreindra fyrirtækja. Að sögn Davíðs hefur félagið verið að auka umsvif sín á þessu svæði og má sem dæmi taka að SMI er nú að byggja stóra verslanamiðstöð í Siauliai í Litháen. Verður hún 11.400 fermetrar að stærð og er ætlunin að opna hana í nóvember. Um leið er verið að byggja 52.000 fermetra vöruhús í Riga.

Höfuðstöðvar fasteignafélagsins SMI eru í Reykjavík. Félagið rekur núna starfsemi í sex löndum en auk Reykjavík eru stöðvar þess í Þórshöfn í Færeyjum, Vilnius í Litháen, Riga í Lettlandi og Búkarest í Rúmeníu. SMI skipuleggur og rekur fasteignir með áherslu á kaup og leigu. Félagið horfir einkum til verslannamiðstöðva og skrifstofuhúsnæðis.