Kauphöll Íslands er í viðræðum um að renna inn í norrænu kauphallarsamstæðuna OMX AB, sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

"Við erum að skoða kosti og galla þess (að renna inn í OMX)," sagði Þórður. Hann reiknar með að málið verði komið langt á veg í haust eða byrjun vetrar.

Markaðsvirði skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni hefur þrefaldast á síðustu þremur árum og nemur um 1200 milljörðum. Þótt að markaðurinn sé smár þá er hann einn sá arðbærasti í Evrópu og hækkaði vísitalan um 58% á síðasta ári. Markaðsvirði félaga í Kauphöllinni er um 120% af landsframleiðslu, sem er óvenju hátt hlutfall, segir Þórður. Hann segir vöxt skráðra fyrirtækja erlendis skýra hluta hækkunarinnar en hlutabréfaverð hefur einnig hækkað ört.

Væntanleg samþjöppun kauphalla í Evrópu getur haft áhrif á ákvörðun Kauphallarinnar um að sameinast OMX, segir Þórður. Evrópska kauphöllin Euronext á í yfirtökuviðræðum við kauphöllina í London (LSE). Deutsche Börse reyndi einnig að taka yfir LSE fyrr á þessu ári. Þórður segir að ef Euronext takist ekki að taka yfir LSE þá sé það raunhæfur möguleiki að LSE og OMX renni saman. Hann telur það gott fyrir Kauphöllina að vera hluti af OMX ef það gerist þar sem íslensk fyrirtæki sæki í vaxandi mæli til Bretlands.

Kauphöllin í Kaupmannahöfn rann inn í OMX í nóvember en áður gerðust kauphallirnar í Helsinki og Stokkhólmi meðlimir. Kauphallir Eystrasaltsríkjanna þriggja -- Eistlands, Lettlands og Litháen -- eru einnig hluti af OMX. Kauphöll Íslands og norska kauphöllin standa einar fyrir utan samstæðuna.