OMX Nordic Exchange Iceland hf. (Kauphöllin) hefur ákveðið að áminna FL Group hf. opinberlega vegna tveggja atvika þar sem félagið er talið hafa gerst brotlegt við ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Er FL Group talinn hafa brotið gegn reglunum með eftirfarandi háttsemi.

Það sem hér fer eftir er byggt á tilkynningu Kauphallarinnar.

1. Vegna tilkynningar um sölu eignar í AMR

Fyrra atvikið sem um ræðir átti sér stað þegar FL Group sendi frá sér tilkynningu þann 30. nóvember 2007.

Málsatvik voru þannig að þann 30. nóvember sl., kl. 09:45, birtist í fréttakerfi Kauphallarinnar tilkynning frá FL Group hf. þess efnis að félagið hefði selt stærsta hluta eignar sinnar í AMR, móðurfélagi American Airlines. Daginn áður hækkaði verð hlutabréfa félagsins töluvert, eða um 3,8%.

Þann 12. desember 2007 óskaði Kauphöllin eftir skýringum frá félaginu um það hvenær samið hefði verið um sölu hlutanna í AMR og tók fram að ekki væri átt við frágang viðskiptanna eða uppgjör að öðru leyti. Skýringar félagsins bárust þann 21. desember 2007.

Í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni kemur fram að félag skuli kappkosta að birta án tafar allar áður óbirtar upplýsingar um ákvarðanir eða atvik sem það vissi eða mátti vita að hefðu marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa þess. Loks kemur að allar upplýsingar sem reglurnar taki til skuli birtar án tafar eða eins fljótt og unnt er.

Samkvæmt tilkynningu Kauphallarinnar gerði FL Group samning við Kauphöllina um töku hlutabréfa þess til viðskipta. Félagið gekkst með því undir reglur Kauphallarinnar um upplýsingagjöf.

„Telja verður að upplýsingaskylda FL Group hf. hafi stofnast þegar félagið tók ákvörðun um að selja umrædd hlutabréf í AMR og því hafi félaginu borið að senda tilkynninguna um ákvörðun sína án tafar þegar ákvörðunin hafði verið tekin,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.

„Þegar litið er til verðhreyfinga sem urðu á bréfum félagsins þann 29. Nóvember og tímasetningu þeirra má leiða að því líkur að umrædd sala hafi haft marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa félagsins [...] en verð hluta þess hækkaði þennan dag um 3,8%.“

Þá segir í tilkynningu Kauphallarinnar:

„Ljóst er að við mat á þeim fjárfestingakostum sem í boði eru þá líta fjárfestar til verðhreyfinga á undirliggjandi eignum félaga. Félaginu hefði því mátt vera ljóst að umrædd ákvörðun um sölu hlutarins í AMR hefði martæk áhrif á hlutabréf félagsins.“

2. Vegna tilkynningar um sölu hluta í Commerzbank Seinna atvikið sem um ræðir átti sér stað þann 15. janúar 2008.

Málavextir eru samkvæmt tilkynningu Kauphallarinnar þeir að þann 15. janúar 2008 birti FL Group hf. tilkynningu þess efnis að félagið hefði selt af eignarhlut sínum í Commerzbank.

Í tilkynningunni kom fram að félagið hefði minnkað hlut sinn í Commerzbank og að í ljósi lækkunar hlutabréfa í bankanum dagana á undan hefði félagið ákveðið að upplýsa um eignarhlut sinn í bankanum sem hefði verið 2,1% þann 15. janúar 2008.

Um áramót hefði eignarhluturinn verið um 2,9% og hafði þá minnkað úr 4,3% við lok þriðja ársfjórðungs.

Þann 16. janúar sl. óskaði Kauphöllin eftir upplýsingum um það hvenær salan á hlut félagsins í Commerzbank hefði átt sér stað. Yfirlit um viðskipti með hluti í Commerzbank barst þann 30. janúar sl. en það náði yfir tímabilið 20. nóvember 2007 til 22. janúar 2008.

Samkvæmt yfirlitinu hóf félagið að minnka stöðu sína í Commerzbank þann 20. nóvember en fyrir þann dag átti félagið alls 4,3% hlut í Commerzbank.

Kauphöllin fór fram á skýringar frá félaginu með bréfi dagsettu 8. maí 2008. Óskað var eftir skýringum á því af hverju félagið birti ekki upplýsingar um sölu á eign sinni í Commerzbank í samræmi við ákvæði í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni.

Þar er lögð sú skylda á útgefanda hlutabréfa að hann birti án tafar allar áður óbirtar upplýsingar sem kunni að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa félagsins.

Samkvæmt tilkynningu Kauphallarinnar birti Fl Group fyrst tilkynningu þann 15. janúar 2008 eftir að hafa, á tímabilinu frá 20. nóvember 2007 til 15. janúar 2008, selt hlut sem nam rúmlega 20% af markaðsvirði félagsins.

„Var sérstaklega farið fram á skýringar á því af hverju samræmis hafði ekki verið gætt í upplýsingagjöf félagsins, þ.e. útgefandi hefði birt upplýsingar um kaup félagsins á 16,4 milljarða kr. hlut í Commerzbank þann 26. september 2007 (úr 3,24% í 4,25% af heildarhlutafé Commerzbank) en félagið hefði ekki tilkynnt aftur um sölu á hlutum í Commerzbank fyrr en 15. janúar 2008, þegar seld höfðu verið 2,2% af heildarhlutafé bankans. Virði þeirrar sölu hefði numið ríflega 31 milljörðum að markaðsvirði og 21,7% af heildarmarkaðsvirði FL Group hf. miðað við gengi þess dags sem tilkynnt var um söluna og 7,3% af heildareignum félagsins um áramót,“ segir í tilkynningunni.

Líkt og varðandi fyrra málið minnir Kauphöllin á að í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni kemur fram að félag skuli kappkosta að birta án tafar allar áður óbirtar upplýsingar um ákvarðanir eða atvik sem það vissi eða mátti vita að hefðu marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa þess. Loks kemur að allar upplýsingar sem reglurnar taki til skuli birtar án tafar eða eins fljótt og unnt er.

Þá kemur fram að samkvæmt yfirliti yfir viðskipti FL Group hf. með hluti í Commerzbank sem áttu sér stað 20. nóvember 2007 til 22. janúar 2008, hafði salan á þessum 2,2% hlut í Commerzbank farið fram í mörgum viðskiptum á umræddu tímabili.

Virði þessa hlutar var 21,7% af heildarmarkaðsvirði FL Group hf. miðað við gengi þess dags sem tilkynnt var um söluna og 7,3% af heildareignum félagsins um áramót.

„Þrátt fyrir að erfitt geti verið að meta hvenær rétt sé að birta upplýsingar um viðskipti sem eiga sér stað í mörgum áföngum verður að telja að um hafi verið að ræða svo stóran hluta af heildareignum félagsins og markaðsvirði þess að forráðamenn félagsins hefðu mátt vita að upplýsingar um sölu á hlutum í Commerzbank kynnu að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa FL Group,“ segir í tilkynningunni.

„Þegar litið er til þess hversu stóran hluta var hér um að ræða verður að telja að hagsmunum fjárfesta hefði verið best borgið með því að birta upplýsingar um sölu félagsins á hlut þess í Commerzbank. Með því að birta ekki upplýsingar sem kynnu að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa félagsins án tafar hefur félagið gerst brotlegt við ákvæði í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.