Kauphöll Íslands hf. hefur ákveðið að áminna Íslandsbanka hf. opinberlega fyrir brot á aðildarreglum NOREX. Kauphöllin álítur að Íslandsbanki hf. hafi gerst brotlegur við ákvæði 4.4.2 í aðildarreglunum. Málavextir eru þeir að við venjubundið eftirlit Kauphallarinnar kom í ljós að starfsmaður bankans, sem ekki hefur leyfi til að miðla, notaði notendaauðkenni miðlara bankans í SAXESS viðskiptakerfinu og átti viðskipti á því auðkenni.

Starfsmaðurinn viðurkenndi brotið og hætti notkun auðkennisins. Einnig kom í ljós að annar miðlari átti einnig viðskipti á umræddu auðkenni. Samtals voru nærri 70 viðskipti framkvæmd á auðkenninu af öðrum en þeim miðlara sem skráður er fyrir því.

Kauphöllin óskaði eftir skýringum bankans og þess miðlara sem átti auðkennið sem notað var. Í skýringum Íslandsbanka hf. kom fram að það hefði verið ákvörðun bankans að láta miðlara eiga viðskipti undir öðru auðkenni en sínu eigin og að miðlarinn hafi því verið beðinn um að lána auðkenni sitt. Jafnframt voru tilgreindar tæknilegar ástæður sem þegar var hafist handa við að ráða bót á.

Kauphöllin hefur áminnt miðlarann óopinberlega, sem lánaði notendaauðkenni sitt, fyrir brot gegn ákvæði 4.4.4 í aðildarreglum NOREX.

Íslandsbanki hf. er aðili að Kauphöll Íslands og ber sem slíkur að fylgja aðildarreglum NOREX. Kauphöllin telur að Íslandsbanki hf. hafi ekki átt að stuðla að því að auðkenni miðlara væri notað af öðrum en þeim sem skráður er fyrir auðkenninu.

Samkvæmt ákvæði 4.4.2 í aðildarreglunum ber kauphallaraðili ábyrgð á öllum aðgerðum miðlara og annarra sem framkvæmdar eru um tengingu kauphallaraðilans við viðskiptakerfið. Þar segir einnig að kauphallaraðili skuli tryggja að persónulegt notandaauðkenni miðlara fylgi hverri einstakri aðgerð hans í viðskiptakerfinu.

Ákvörðun um beitingu opinberrar áminningar er tekin á grundvelli samnings Íslandsbanka hf. við Kauphöllina um aðild Íslandsbanka hf. að Kauphöll Íslands, sbr. ákvæði 4.11.13 í aðildarreglunum en þar kemur fram að ef kauphallaraðili brjóti lög, reglugerðir, aðildarreglur NOREX, stundi ekki vandaða viðskiptahætti eða sýni á annan hátt fram á vanhæfni sem kauphallaraðili er Kauphöll Íslands m.a. heimilt að birta opinberlega yfirlýsingu varðandi umrætt mál.