Kauphöllin á Íslandi mun frá og með 1. janúar 2009 hefja útreikning á nýrri hlutabréfavísitölu, OMXI6.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni kemur fram að vísitalan mun innihalda þau sex félög sem tekin eru til viðskipta í Kauphöllinni og hafa hvað mesta veltu og seljanleika.

„Tilgangur vísitölunnar er að endurspegla þróun á íslenskum hlutabréfamarkaði og vera gott fjárfestingartæki fyrir alla fjárfesta, sjóðsstjóra jafnt sem aðra markaðsaðila,“ segir í tilkynningunni..

Vægi félaga í vísitölunni ræðst af flotleiðréttu markaðsvirði. Vísitalan verður reiknuð í íslenskum krónum og evrum, auk þess sem boðið verður upp á útgáfu með vægisþaki (OMXI6 Cap) og útgáfu sem leiðrétt er fyrir áhrifum arðgreiðslna (OMXI6 GI).