Heildarviðskipti með skuldabréf námu rúmum 259 milljörðum króna í septembermánuði sem samsvarar 11,8 milljarða króna veltu á dag.

Þetta kemur fram í mánaðaryfirliti Kauphallarinnar en í ágústmánuði nam veltan 16,1 milljörðum króna á dag.

Mest voru viðskipti með lengstu flokka ríkisbréfa, RIKB 19 0226 um 38,4 milljarðar og þá með RIKB 13 0517 3 um 7 milljarðar.

Þá námu viðskipti með ríkisbréf alls 163,8 milljörðum en viðskipti með íbúðarbréf námu 82,8 milljörðum. Heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa nam tæpum 1.323 milljörðum og lækkaði um 1,25% milli mánaða.

Þá kemur jafnframt fram að ávöxtunarkrafa þriggja mánaða óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI3MNI) lækkaði um 8 punkta í mánuðinum og stendur nú í 7,51%.  Ávöxtunarkrafa eins árs óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI1YNI) hækkaði um 33 punkta og er núna 7,04%.

Líkt og í ágúst var MP Banki með mestu hlutdeildina í september eða 36,3% (30,3% á árinu), Íslandsbanki með 28,1% (28,4% á árinu) og NBI með 14% (13,1% á árinu).