Samruni Actavis og bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson Pharmaceuticals er formlega genginn í gegn og samhliða því hefur sú ákvörðun verið tekin að nafn hins sameinaða fyrirtækis verði Actavis.

Merkinu verður þó breytt, m.a. á þann veg að hægt verði að sjá stafinn W í merkinu, til marks um bandaríska forverann. Fyrirtækið mun hefja starfsemi undir nýju nafni um áramótin.

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu sem kemur út í dag.

Þá hefur nýtt stjórnendateymi fyrir samheitalyfjaarm fyrirtækisins á heimsvísu verið ákveðið og af tíu meðlimum þess koma sex frá Actavis og fimm af þessum tíu eru íslenskir. Sigurður Óli Ólafsson, sem hefur verið yfir samheitalyfjaarmi Watson, mun stýra þessum hluta fyrirtækisins. Núverandi forstjóri Actavis á heimsvísu, Claudio Albrecht, mun hætta störfum um næstu áramót sem og Peter Prock aðstoðarforstjóri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.