Kaup bandaríska félagsins PT Capital Advisors á Nova eru ekki enn gengin í gegn og lítill áhugi virðist vera meðal stærstu lífeyrissjóða landsins að taka þátt í kaupunum á fyrirtækinu. Enn sé því leitað af íslenskum fjárfestum til að ljúka fjármögnun. Frá þessu er greint í ViðskiptaMogganum í dag.

Hugh S. Short, forstjóri Pt Capital Advisors, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið, þann 5. nóvember, að: „Við erum um þessar mundir að ganga frá endanlegri fjármögnun kaupanna í samstarfi við Íslensk verðbréf. Við gerum ráð fyrir að gengið verði frá öllum lausum endum fyrir árslok.“

Í grein ViðskiptaMoggans segir hins vegar að þrír af fjórum stærstu lífeyrissjóðum landsins, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Birta, koma ekki til með að taka þátt í viðskiptunum. Jafnframt er haft eftir Gísla Val Guðjónssyni, forstöðumanni sérhæfðra fjárfestinga hjá Íslenskum verðbréfum, að stefnt hafi verið að því að klára viðskiptin fyrir áramót. Hins vegar hafi það verið metnaðarfullt að klára svo stór viðskipti í nóvember og desember. Um söluna var tilkynnt í október síðastliðnum.