Kaupþing banki hf. hefur, fyrir milligöngu félags sem er að öllu leyti í eigu Kaupþings banka, gert bindandi kauptilboð í breska bankann Singer & Friedlander Group plc (Singer & Friedlander) og hefur stjórn Singer & Friedlander mælt með því við hluthafa að þeir taki tilboðinu. Ef kaupin ganga eftir mun Kaupþing banki efla verulega starfsemi sína í Bretandi sem verður mikilvægasta einstaka markaðssvæði bankans ásamt Danmörku og Íslandi. Kauptilboðið hljóðar upp á 316 pens á hlut eða sem svarar til um 547 milljónum punda (64,6 milljörðum króna) fyrir alla útgefna hluti í Singer & Friedlander.

Verði af yfirtöku mun Kaupþing banki staðgreiða hlutina. Hluthafar á
hlutaskrá 29. apríl munu jafnframt halda rétti sínum til arðgreiðslu vegna ársins 2004 sem nemur 4,25 pensum á hlut í Singer & Friedlander. Kaupþing banki á fyrir 19,5% hlutafjár í Singer & Friedlander.

Singer & Friedlander var stofnað árið 1907 og sérhæfir sig í almennri bankastarfsemi, fjármögnunarleigu (e. asset finance) og eignastýringu. Rúmur helmingur tekna á árinu 2004 kom úr almennu bankastarfseminni sem samanstendur af fyrirtækjasviði, einkabankaþjónustu og verkefnafjármögnun vegna byggingaframkvæmda. Almenn bankastarfsemi Singer & Friedlander snýst einkum um lánveitingar til einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Í lok árs 2004 námu eignir í stýringu um 3,8 milljörðum punda (449 milljörðum króna) og þar af voru 2,7 milljarðar punda (319 milljarðar króna) í eigu einstaklinga.

Höfuðstöðvar Singer & Friedlander eru í Lundúnum, en bankinn er einnig með starfsemi víðar á Bretlandseyjum. Rekstur Singer & Friedlander hefur gengið vel undanfarin ár. Hagnaður ársins 2004 eftir skatta nam 26,4 milljónum punda (3,1 milljarði króna). Heildareignir Singer & Friedlander
námu 2,8 milljörðum punda (331 milljarði króna) í lok árs 2004, en til samanburðar námu heildareignir Kaupþings banka þá 1.534 milljörðum króna. Eigið fé Singer & Friedlander þann 31. desember nam um 366 milljónum punda (43,2 milljörðum króna).