Kaupþing hefur ekki setið auðum höndum við fjármögnun að undanförnu og hefur það sem af er árinu safnað 320 milljörðum íslenskra króna með skuldabréfaútgáfu víða um heim. Þar af hafa 100 milljarðar verið tryggðir á undanförnum mánuði og 50 milljarðar í þessari viku einni saman.

Mikið hefur verið að gera í fjárstýringu bankans en í gær  gekk Kaupþing frá útgáfu víkjandi skuldabréfa í gær að andvirði 250 milljóna evra ( sem samsvarar 21 milljarði króna) og í gærkvöldi verðlagði bankinn Samúræjabréfaútgáfu sína sem nemur 28 milljörðum jena eða 14,2 milljörðum íslenskra króna.


Að sögn Guðna Aðalsteinssonar, forstöðumanns fjárstýringar Kaupþings, ráða góðar markaðsaðstæður um þessar mundir mestu um annríkið um þessar mundir. Hann segir að fjármögnun þessa árs sé þó hvergi nærri lokið heldur muni Kaupþing halda áfram að gefa út skuldabréf víðsvegar um heim í mörgum litlum stærðum. "Við leggjum mikla áherslu á að auka fjölbreytni okkar í fjármögnun, breikka markaði okkar og auka landfræðilega dreifingu. Í þessu sambandi erum við að horfa til nýrra markaða, alla leið til Asíu en einnig kemur til greina að gefa út svokölluð kengúrubréf, það er skuldabréf í áströlskum dollurum. Stundum er ástandið gott á markaðinum og stundum slæmt og við verðum einfaldlega að hamra járnið á meðan það er heitt," segir Guðni.


Guðni segir að útgáfa víkjandi skuldabréfa í evrum hafi gengið framar vonum og á endanum var gefið út fyrir meira en til stóð, eða alls 250 milljónir evra í stað 200. "Móttökurnar voru frábærar og á endanum skráðu 66 fjárfestar sig fyrir áskrift," segir Guðni. Skuldabréfaútgáfa af þessu tagi er með því sniði að Kaupþing getur kallað inn bréfin eftir fimm ár. Guðni segir helsta kost víkjandi skuldabréfaútgáfu af þessu tagi vera þann að þau teljast til eiginfjárgrunns bankans. "Í kjölfarið hækkar eiginfjárhlutfall bankans um 0,66% en á síðasta ársfjórðungi var það 9,6%. Af þessu má sjá að við erum mjög vel í sveit sett varðandi eiginfjárhlutfall en markmiðið er að halda því yfir 8%," segir Guðni.

Hátt eiginfjárhlutfall einkennir yfirleitt félög sem eru að fá lyst á yfirtökum en Guðni segir að tilgangur fjármögnunarinnar nú sé ekki sá að huga að ytri vexti bankans. "Þetta er ekki gert til að fjármagna yfirtöku heldur erum við einfaldlega að auka eigið fé í vaxandi banka," segir Guðni.


Til viðbótar við mikil umsvif í fjármögnun meðal evrópskra fjárfesta þá hefur Kaupþing einnig slegið lán hjá Japönum og hafa lokið við verðlagningu útgáfu Samúræjaskuldabréfa að upphæð 28 milljarðar jena sem samsvarar 14,2 milljörðum króna. "Útgáfan í Japan hefur gengið framar vonum við erum að fylgja eftir útgáfu okkar þar í landi á síðasta ári. Útgáfan nú er í nokkrum flokkum og verðlagning útgáfunnar er nú helmingi lægri heldur en síðasta vetur. Þetta bendir til þess að japanskir fjárfestar þekkja nafnið okkar og hafi trú á bankanum sem er auðvitað mjög jákvætt," segir Guðni.