Kaupþing [ KAUP ]  í Reykjanesbæ veitti í gær þrjá 100.000 króna afreksstyrki til ungs íþróttafólks. 25 tilnefningar bárust frá 6 íþróttafélögum. Fyrir valinu urðu:

Erla Dögg Haraldsdóttir , sundkona úr Njarðvík, hefur unnið 8 íslandsmeistaratitla og sett 10 íslandsmet á árinu og er í 16. sæti á afrekaskrá Evrópu. Hún vann til tvennra gullverðlauna og einna silfurverðlauna á Smáþjóðaleikunum og í síðustu viku bætti hún 15 ára gamalt íslandsmet Ragnheiðar Runólfsdóttur í 50m bringusundi.

Helgi Rafn Guðmundsson æfir í Taekwondo deild Keflavíkur. Hann er í landsliðinu og vann til silfurverðlauna á Norðurlandamótinu á þessu ári en áður hafði hann tvívegis unnið til verðlauna á Norðurlandamóti. Á Scandinavian Open mótinu í nóvember var hann valinn keppandi mótsins af ríflega 300 þátttakendum.

María Jónsdóttir er 14 ára og spilar körfubolta með Keflavík. Hún hefur verið Íslandsmeistari með liði sínu undanfarin 5 ár og í vor var hún valin í 16 ára landslið stúlkna, yngst keppenda. María hefur verið valin besti og mikilvægasti leikmaðurinn á uppskeruhátíðum Keflavíkur.