Kaupþing mun ljúka fjármögnun endurgreiðslna á langtímaskuldum ársins 2009 fyrir ágústlok, að því er fram kom í norskum fjölmiðlum í gær.

Sigurður Einarsson stjórnarformaður bankans sagði, í samtali við Finansavisen, að lausafjárstaða bankans vær „gríðarlega góð" og að það væri mikilvægt að hann gæti sagt það líka eftir sex og 12 mánuði.

„Við verðum fullfjármagnaðir fyrir 2009 í ágúst á þessu ári," sagði Sigurður við blaðið.

Þá sagði hann að Kaupþing hefði ekki áætlanir um að skerast í leikinn á markaði fyrir skuldatryggingar bankans, en álag á þær hefur sem kunnugt er verið afar hátt.

„En kannski ættum við að gera það," sagði hann við Finansavisen. „Í millitíðinni er mikilvægt fyrir okkur að koma þeim skilaboðum á framfæri að lausafjárstaða okkar er gríðarlega góð og að við verðum í stöðu til að segja það aftur eftir sex og 12 mánuði," sagði Sigurður við blaðið.