Greiningadeild Kaupþings gerir ráð fyrir leiðréttingu í verðkennitölum fjármálastofnana á árinu með verðhækkunum þegar óvissa vegna undirmálslánakrísunnar minnkar.

Greiningadeildin telur hins vegar ólíklegt að þessi viðsnúningur muni eiga sér stað í bráð með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á innlendan markað. Þetta kemur fram í hálffimm fréttum Kaupþings fyrir helgi en þar kynnir greiningadeildin rit sitt um um þróun og horfur á hlutabréfamarkaði

Segir árslokagildi Úrvalsvísitölunnar verði 6.850 stig

Greiningadeildin telur að næstu mánuðir verði nokkuð erfiðir á hlutabréfamarkaði og segir svo verða á meðan ekki sjái til botns á lækkunum í Bandaríkjunum.

„Við spáum árslokagildi Úrvalsvísitölunnar í 6.850 stigum sem felur í sér u.þ.b. 8,5% hækkun á árinu.  Spáin miðar við að verðkennitölur í fjármálaþjónustu á Norðurlöndum  - sem nú eru í 10 ára lágmarki – muni lyftast upp á árinu og færast nær sögulegu meðaltali um leið og óvissu vegna afskrifta verður eytt. Það muni síðan lyfta gengi íslenskra fjármálafélaga að sama marki,” segir í riti greiningadeildar Kaupþings.

Rót undirmálslánakrísunnar

Þá telur Kaupþing núverandi fjármálaóstöðugleiki rekinn áfram af fjórum þáttum:

  1. Hnígandi hagsveiflu,
  2. sprunginni fasteignabólu,
  3. verðleiðréttingu á gjaldþrotaáhættu og
  4. auknum kröfum um eigið fé í útlánum.

„Allir þessir fjórir áhættuþættir hafa verið sýnilegir á liðnum árum og talsvert ræddir – en ekki af sama hópi og aldrei allir í einu. Með gjaldþrotum undirmálslána runnu þessir fjórir þættir skyndilega að einum ósi – lausafjárkrísu og eignaverðslækkunum. Að mati Greiningardeildar eru ýmsar vísbendingar um að sú lækkunarhrina sem dunið hefur yfir fjármálafyrirtækin sé nú að nálgast endastöð. Til að mynda hefur helsti mælikvarðinn á lausafjárkrísu - mismunur millibankavaxta og stýrivaxta seðlabanka – verið að ganga niður undanfarið,” segir í riti greiningadeildarinnar.