Kaupþing hefur ákveðið að selja 25% hlut sinn í Intrum á Íslandi til annara eigenda fyrirtækisins, sem eru Intrum Justitia, Landsbanki Íslands og Sparisjóðirnir, segir í fréttatilkynningu.

Hlutur eigendanna þriggja er nú 33,3%, en sænska fyrirtækið Intrum Justitia mun hafa greitt um 79 milljónir króna fyrir hlutinn, segir í tilkynningunni

Forstjóri og framkvæmdarstjóri Intrum Justitia, Michael Wolf, segir Intrum á Íslandi hafa verið vel rekið undir formerkjum Intrum Justitia og að fyrirtækið hafi verið í miklum vexti og sé því ánægður með að auka við hlut fyrirtækisins og að spennandi verði að taka þátt í þróun Intrum á Íslandi í framtíðinni.

Intrum á Íslandi var stofnað árið 1995 í tengslum við Intrum Justitia og starfa nú um 150 manns hjá fyrirtækinu, ársvelta Intrum á Íslandi 1,5 milljarðar króna, að því er kemur fram í fréttinni. Markmið Intrum er að aðstoða sína viðskiptavini við að ná hámarks árangri við innheimtu vanskilakrafna á hagkvæman hátt með hagsmuni jafnt kröfuhafa og skuldara að leiðarljósi, með þetta markmið að leiðarljósi sérhæfir fyrirtækið sig í ráðgjöf og greiningu á fjárstreymi og innheimtuferlum fyrirtækja og einstaklinga.

Intrum Justitia er einn helsti innheimtuþjónustuaðili á Evrópumarkaði og starfa um 2900 aðilar hjá fyrirtækinu í 22 löndum. Fyrirtækið er skráð í norrænu kauphöllina og eru tekjur fyrirtækisins um 275 milljarðar á ársgrundvelli.