Kaupþing hefur verið iðið við kolann það sem af er árinu við öflun fjármagns og hefur frá ársbyrjun safnað 320 milljörðum íslenskra króna með skuldabréfaútgáfu víða um heim. Stærstur hluti þessarar upphæðar hefur verið tryggður nú á sumarmánuðum. Fjárstýring Kaupþings er þrátt fyrir þennan árangur ekki í sumarfríi heldur stendur nú í ströngu við að kynna bankann fyrir fjárfestum í Ástralíu en undirbúningur svokallaðra kengúrubréfa, skuldabréfa í áströlskum dollurum, stendur nú yfir. Guðni Aðalsteinsson, framkvæmdarstjóri fjárstýringar Kaupþings, var staddur í Melbourne í Ástralíu í gær. "Við höfum verið í Sydney síðustu daga en munum nú hitta fjárfesta í Melbourne og síðar Brisbane. Við munum hitta um það bil 30 fjárfesta hér í Ástralíu og kynna fyrir þeim Kaupþing og aðstæður í íslensku hagkerfi. Eftir að þessum formlegu kynningum lýkur er næsta skref að meta viðbrögð og áhuga þeirra fjárfesta sem við höfum hitt og taka svo ákvörðun um hugsanlega útgáfu í framhaldi af því," segir Guðni. Hann segist búast við því að af útgáfu verði á þriðja ársfjórðungi þessa árs og að endanleg stærð fari eftir áhuga áströlsku fjárfestanna. "Okkur liggur í raun ekkert á að gefa út enda er lausafjárstaða bankans góð og fjármögnun hefur gengið vel að undanförnu. Engu að síður höfum við mikinn áhuga á að fylgja eftir þessari heimsókn með útgáfu kengúrubréfa," segir Guðni.

Hann segir að flestir fjárfestanna séu kunnugir Kaupþingi og íslenskum aðstæðum, enda hafi fjárstýring Kaupþings verið á ferðinni í Ástralíu í lok árs 2005 og hitt marga þeirra. Síðan skall á umrótið í íslensku viðskiptalífi í kjölfar mikillar neikvæðar erlendrar umfjöllunar sem varð til þess að allar aðstæður til útgáfu breyttust til hins verra eins og kunnugt er. "Við erum í raun að taka upp þráðinn þaðan sem frá var horfið í lok árs 2005. Aðstæður á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum urðu ansi sérstakar skömmu eftir að við hittum þá síðast sem varð til þess að við settum útgáfu kengúrubréfa á ís og ákváðum að bíða eftir betri tíð. Í raun má segja að sú tíð sé runnin upp núna," segir Guðni. "Við erum í raun að segja áströlsku fjárfestunum söguna af því sem gerðist árið 2006 og hver staðan er núna," segir Guðni.

Um fyrstu almennu kengúruútgáfu Kaupþings verður að ræða en áður hefur bankinn gefið út í lokuðu útboði fyrir alls 260 milljónir ástralskra dollara, sem nemur rúmlega 15 milljörðum króna.
Aðspurður segir Guðni það ekki vera stórmál að sækja fjármagn alla leiðina til Ástralíu. "Auðvitað er meiri fyrirhöfn að vinna að fjárfestatengslum í Ástralíu heldur en til Evrópu eða Bandaríkjanna. En þetta er í takt við okkar áætlanir um að stuðla að mikilli landfræðilegri dreifingu fjármögnunar bankans. Það er okkur mikið ánægjuefni að geta bætt inn nýjum mörkuðum og við höfum lagt mikla áherslu á það að undanförnu. Við vorum til dæmis fyrsti evrópski bankinn til að gefa út í Búlgaríu í búlgörskum gjaldmiðli núna fyrir skömmu og erum afar stolt af því," segir Guðni.