Kaupþing hefur ákveðið að stofna 400 milljón evra (36 milljarðar íslenskra króna) fjárfestingasjóð og verður hlutverk sjóðsins að halda utan um óskráðar fjárfestingar bankans. Að sögn Jónasar Sigurgeirssonar, talsmanns Kaupþings, verður sjóðurinn fjármagnaður að hluta til af bankanum, en einnig er reiknað er með fjármagni frá öðrum fjárfestum.

Helgi Bergs, sem stýrir fjárfestingabankastarfsemi Kaupþings, mun hafa yfirumsjón með nýja sjóðnum, sem nefnist Kaupthing Captial Partners II. Jónas reiknar ekki með því að nýir starfsmenn verði ráðnir og mun fjárfestingadeildin í London (e. principal investment) umbreytast í fjárfestingasjóðinn (e. private equity fund).

Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi munu allar nýjar óskráðar fjárfestinga fara í gegnum sjóðinn frá og með byrjun árs 2007. Bankinn leiddi nýlega skuldsetta yfirtöku á bresku tískuvöruverslunarkeðjunni Phase Eight fyrir um sjö milljarða íslenskra króna. Bankinn mun taka 35% stöðu í Phase Eight og verður eignin sett inn í Kaupthing Capital Partners II.

Stjórn Kaupþings samþykkti á þriðja ársfjórðungi í fyrra að draga úr skráðum og óskráðum eignum bankans og að hlutfallið skyldi vera innan við 35% af eiginfjárgrunni hans. Þann 31. desember nam hlutfallið 34,5%, og var hlutfall skráðra eigna 24,7% og óskráðra eigna 9,8%.

Á uppgjörsfundi Kaupþings í byrjun vikunnar sagði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans, að markmiðið með sjóðnum væri að draga úr áhættu bankans og með því að fá utanaðkomandi fjárfesta losa hluta óskráðra fjárfestinga af efnahagsreikningi bankans. Jónas benti einnig á að með því að fá inn nýja fjárfesta í sjóðinn myndaðist tækifæri til þess að ráðast í stærri verkefni en áður.