Kaupþing banki er að undirbúa sölu á skuldabréfum í Japan, samkvæmt upplýsingum frá markaðsaðilum.

"Það er ekki hægt að segja neitt um málið að svo stöddu þar sem endanleg stærð eða verð hefur ekki verið ákveðið. Ég býst ekki við að það komi í ljós fyrr en í enda vikunnar," segir Guðni Aðalsteinsson hjá Kaupþingi banka en bankinn hyggst gefa út skuldabréf í japönskum yenum.

Reiknað er með að kjörin verði á bilinu 70-85 punktar yfir millibanka vexti í Japan.

"Við erum eini Norðurlandaaðilinn að Japansmarkaði. Staða okkar er því sterk á þessum markaði sem og annars staðar þar sem við höfum gert það sama," segir Guðni en tilgangur með skuldabréfaútgáfu í Japan er að dreifa fjármögnun í meira mæli og þar af leiðandi áhættunni.

"Þetta er einn liður af mörgum og erum við að horfa til enn fleiri markaða." Kaupþing banki hefur nú gefið út skuldabréf í Ástralíu og í Bandaríkjunum og segir Guðni bankann jafnframt hafa mikinn áhuga á Asíumarkaði. "Og þá ekki síst Mið-Austurlöndum. Ég held að það sé aðeins tímaspursmál hvenær af því verður," segir Guðni.

Guðni segir mikilvægt að breikka fjárfestahópinn þegar kemur að skuldabréfaútgáfu. "Okkur vantar ekki þessar upphæðir heldur viljum við breikka fjárfestahópinn og hafa fleiri markaði um að velja á hverjum tíma. Við sjáum að þessi viðleitni okkar er að bera árangur. Krafan á eftirmarkaði hefur verið að lækka á síðustu dögum og sjá menn að sífellt fleiri markaðir standa okkur opnir. Margir greiningaraðilar bentu á fyrr á árinu að mikilvægt væri að huga að endurfjármögnun bankanna. Öll sú viðleitni að dreifa áhættunni hefur haft mjög jákvæð áhrif á viðmót fjárfesta sem endurspeglast í ávöxtunarkröfu á eftirmarkaði," segir Guðni.

Hvað skulabréfaútgáfuna í Japan varðar, segir hann að henni muni ljúka seinna í þessari viku, líklega á fimmtudag. "Þá verður hægt að segja betur til um stærð og verð á skuldabréfunum en ekki fyrr."