Kaupþing virðist enn hafa fullan hug á að eignast stærri eignarhlut í norska trygginga- og fjármálarisanum Storebrand. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hyggst Kaupþing fara fram á leyfi norska fjármálaeftirlitsins til að eignast stærri eignarhlut en þau 20% sem bankinn á og hefur leyfi til að eiga í Storebrand.

Þannig munu stjórnendur Kaupþings funda með starfsmönnum norska fjármálaeftirlitsins í dag og kynna sjónarmið sín og óska eftir heimild til að fá að fara yfir 20%-mörkin.

Miðað við gengi bréfa Storebrand nú myndi það kosta Kaupþing fast að 15 milljörðum íslenskra króna að kaupa 5% til viðbótar í Storebrand en áður hefur komið fram af hálfu stjórnenda Kaupþings að þeim þyki verðið á bréfum Storebrand hagstætt.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .