Um 80 starfsmönnum gamla Kaupþings hefur verið stefnt til greiðslu skuldar vegna hlutabréfakaupa. Slitastjórnin hótaði kyrrsetningu eigna ef fólk flytti eignir sínar á aðra aðila.

Starfsmönnum gamla Kaupþings, sem veitt var lán til hlutabréfakaupa, hefur verið stefnt til greiðslu skuldarinnar af slitastjórn bankans. Ólafur Garðarsson, formaður slitastjórnar Kaupþings, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið. „Stærsti hluti þessara starfsmanna var með tiltölulega lágar fjárhæðir, undir fimmtán milljónir króna eða minna. Síðan eru þeir sem mestu réðu um hvert bankinn fór á endanum með mun hærri fjárhæðir.“

Ólafur segir að fólki hafi verið birt stefnan um mánaðamótin júní/júlí og hefur réttarhléið verið notað til að leysa málin og semja um greiðslu skulda án atbeina dómstóla. Að öðrum kosti verði málin þingfest í haust. „Það eru ekki allir sem hafa lýst yfir vilja til að gera upp sín mál, til dæmis sumir af þessum stærri aðilum,“ segir Ólafur. Fjölmörg mál séu enn í vinnslu.

Á við 80 starfsmenn

Samkvæmt tilkynningu sem slitastjórnin sendi frá sér 17. maí síðastliðinn höfðu 80 starfsmenn gamla Kaupþings fengið tilkynningu um riftun á niðurfellingu persónulegra ábyrgða vegna lána sem bankinn veitti þeim til hlutabréfakaupa. Heildarfjárhæð umræddra lána væri hátt í 32 milljarðar króna og tæplega 15 milljarðar voru veittir að láni með persónulegri ábyrgð.

Ólafur segir að það eigi eftir að koma í ljós hversu mikið af þeirri upphæð innheimtist í þessum aðgerðum. Miðað er við stöðu lánanna við fall Kaupþings í október 2008.

-Nánar í Viðskiptablaðinu