Róbert Guðfinnsson athafnamaður hefur keypt allar eignir Síldarvinnslunnar á Siglufirði. Um er að ræða eignir sem áður tilheyrðu SR-mjöli, en árið 2003 runnu Síldarvinnslan og SR-mjöl saman í eitt fyrirtæki sem ber nafn Síldarvinnslunnar. Róbert og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, skrifuðu undir samninginn fyrir helgi en kaupverðið er trúnaðarmál.

„Við hjá Síldarvinnslunni gleðjumst yfir því að afhenda athafnamanninum og Siglfirðingnum Róberti Guðfinnssyni umræddar eignir," segir Gunnþór á vef Síldarvinnslunnar, svn.is. „Róbert stendur í umfangsmikilli uppbyggingu á ferðamannaþjónustu á Siglufirði auk þess að koma að rekstri skíðasvæðisins á staðnum og uppbyggingu golfvallarins svo eitthvað sé nefnt. Með þessum kaupum stuðlar Róbert enn frekar að uppbyggingu á staðnum.

Ég trúi því að þær hugmyndir sem Róbert hefur um nýtingu eignanna muni koma samfélaginu vel og stuðla að frekari framþróun á Siglufirði og í Fjallabyggð. Við bindum vonir við að nýtingarhugmyndir Róberts boði nýtt upphaf fyrir nýtingu eignanna í þágu atvinnu og mannlífs á Siglufirði."

Rauðka, félag Róberts, hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu og endurgerð gamalla húsa á Siglufirði undanfarin ár.