Kaupmáttur launa hefur haldið áfram að vaxa þrátt fyrir mikla niðursveiflu. Útlit er fyrir að atvinnuleysi gæti þó aukist og orðið þrálátara á komandi tíð, segir í grein frá Jóni Bjarka Bents­syni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka á vef bankans .

„Aðila vinnumarkaðar bíður það úrlausnarefni hvort breyta eigi áherslum í átt til þess að vernda störf fremur en kaupmátt launa næstu misserin,“ skrifar Jón.

Launavísitalan hækkaði um 0,2% í júní frá sama mánuði í fyrra en frá sama mánuði fyrir ári síðan hefur vísitalan hækkað um 6,7%. Kaupmáttur launa rýrnaði um 0,3% í júnímánuði frá mánuðinum á undan. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa hins vegar aukist um 4,0%.

Jón Bjarki rekur þennan kaupmáttarvöxt að stærstum hluta til Lífskjarasamningana. Þeir hafi skilað stórum hluta vinnumarkaðar talsverðri hækkun launa í prósentum talið frá vordögum 2019. Á sama tíma hefur verðbólga verið hófleg þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi fallið um tæp 7% á tímabilinu.

Þjóðhagsspá greiningardeildar Íslandsbanka, sem út kom í maí síðastliðnum, hljóðar upp á ríflega 2% kaupmáttarvöxt á yfirstandandi ári og ríflega 1,5% vöxt kaupmáttar launa að jafnaði næstu tvö ár. Hins vegar eru horfur á að atvinnuleysi verði öllu meira á komandi fjórðungum en raunin var eftir hrunið 2008-2009.

Kaupmáttarrýrnun dreifist minna en áður

Að stórum hluta, er ástæðan fyrir auknu atvinnuleysi einfaldlega sú hversu snöggur skellurinn er nú og að hann dynur beint á mjög mannaflsfrekri atvinnugrein, ferðaþjónustunni. „Hins vegar má einnig segja að í staðinn fyrir að sú leið sé farin að dreifa áhrifum tekjumissis í útflutningsgeiranum fremur jafnt yfir launþega líkt og fólst í kaupmáttarrýrnun eftir verðbólguskot fortíðar verði núna líklega allskörp skil milli tveggja hópa.“

Annars vegar njóta þeir sem áfram hafa vinnu svipaðs kaupmáttar og verið hefur. Hins vegar stækkar ört sá hópur sem verður fyrir umtalsverðri skerðingu ráðstöfunartekna vegna atvinnumissis og tekur því í ríkari mæli á sig byrðina af efnahagsáfallinu nú en áður var.

„Viðvarandi útbreitt atvinnuleysi hefur reynst mikill bölvaldur víða og fylgir því tapaður mannauður, rýrnun lífskjara, aukin félagsleg vandamál og samfélagslegt ósætti, svo nokkuð sé nefnt. Hér á landi höfum við hins vegar borið gæfu til þess að sleppa að mestu við þennan bölvald fram að þessu.

Það er því verðugt umhugsunar- og úrlausnarefni fyrir aðila vinnumarkaðar hvort rétt sé að feta þá braut sem mörkuð hefur verið eða hvort betur færi á að taka atvinnustigið tímabundið fram yfir kaupmáttarvöxt launa þar til glaðna fer til í hagkerfinu að nýju,“ skrifar Jón Bjarki.