Launavísitala í mars 2013 er 455,3 stig og hækkaði um 1,3% frá fyrri mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 5,5%. Vísitala kaupmáttar launa í mars er 113,7 stig og hækkaði um 1,1% frá fyrri mánuði. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 1,5%. Kemur þetta fram á vefsíðu Hagstofunnar.

Í launavísitölu marsmánaðar gætir áhrifa hækkana sem kveðið var á um í kjarasamningum milli fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, við stærstu stéttarfélög opinberra starfsmanna sem undirritaðir voru í júní 2011. Í þeim var kveðið á um almenna hækkun launataxta um 3,25% í mars 2013.

Þá gætir einnig áhrifa hækkana sem kveðið var á um í kjarasamningum milli Sambands íslenskra sveitarfélaga við stærstu stéttarfélög opinberra starfsmanna sem undirritaðir voru í maí 2011. Í samningunum var kveðið á um hækkanir á launatöflum, frá 1. mars 2013.