Atvinnuleysi var minna, laun hærri, atvinnuþátttaka meiri og vinnudagurinn lengri á fyrsta ársfjórðungi í ár en á sama ársfjórðungi í fyrra, segir greiningardeild Glitnis

Laun hækkuðu um 8,5% á tímabilinu, atvinnuleysi fór úr 3,0% í 2,4%, atvinnuþátttakan fór úr 79,8% í 81,1% og meðalvinnudagurinn úr 40,7 stundum í 41,2.

Þegar frá ofangreindum launahækkununum er dregin verðbólga fæst að kaupmáttur jókst um 3,9% á fyrrnefndu tímabili.

Yfir síðastliðin tíu ár hefur kaupmáttur launa vaxið um rétt tæplega 50%. ?Kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri og standa heimilin afar vel hvað laun og atvinnu varðar," segir greiningardeildin.

Tvær hliðar á hverjum pening

Það má lesa þessar tölur á tvennan máta. ?Annars vegar segja þær að atvinnulega hefur almenningur það mjög gott um þessar mundir. Það er atvinna fyrir nær alla og laun eru sögulega há. Sú niðurstaða er óbreytt þó tekið sé tillit til verðbólgunnar undanfarið," segir greiningardeildin og bendir á hina hliðina.

?Hin hlið þessarar myndar er sú sem sýnir þenslu á vinnumarkaði og verðbólguhættu. Svona hröðum launahækkunum fylgir hætta á kostnaðarverðbólgu og leggst hún við þá verðbólgu sem væntanleg er vegna gengislækkunar krónunnar. Staða vinnumarkaðarins ber merki um ofhitun hagkerfisins þar sem veruleg umframspurn hefur verið eftir vinnuafli að undanförnu."

Þörf á að draga úr verðbólguþrýstingnum

Ljóst er að sú þróun sem virðist nú liggja í spilunum að úr spennu á vinnumarkaði dragi á næstunni er jákvæð á heildina litið, að mati greiningardeildarinnar.

Það er þörf á því til að draga úr verðbólguþrýstingi. ?Við spáum að á næsta ári muni atvinnuleysið aukast og að draga muni úr kaupmætti. Í ljósi þess hve kaupmáttur hefur vaxið mikið og hratt undanfarið og atvinnuleysi er lítið er hér í raun um leiðréttingu að ræða og færslu á hagkerfinu í átt til betra jafnvægis þar sem verðbólga er viðunandi. Allt tal um að í því felist kreppa að einhverju tagi að atvinnuleysi hér á landi fari í ríflega 3% eins og við reiknum með að gerist á næstu misserum og að kaupmáttur launa lækki ríflega 2% er því úr lausu lofti gripið," segir greiningardeildin.