365 miðlar ehf. og D3 miðlar ehf. hafa gert samning um kaup 365 miðla á rekstrareiningunni Tónlist.is af D3 miðlum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá 365, en VB.is greindi í gær frá kauptilboði sem hafði verið gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þess samþykkis er enn beðið.

Tónlist.is er stafræn tónlistarþjónusta sem býður upp á streymi í áskrift og/eða stök lög og plötur sem niðurhal. D3 hefur rekið Tónlist.is frá árinu 2003 þegar vefsíðan var fyrst sett í loftið. D3 mun starfa áfram sem efnisveita fyrir íslenska tónlist til innlendra og erlendra aðila og mun áfram sjá Tónlist.is fyrir íslenskri tónlist.

D3 rekur einnig vefsíðuna eBækur.is og mun halda áfram þeim rekstri ásamt því að sinna öðrum rekstrareiningum félagsins. Stefán Hjörleifsson stofnandi D3 miðla hefur tekið við rekstri félagsins aftur eftir nokkurra ára hlé frá rekstri þess.