*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 16. janúar 2018 09:45

Kaupþing býður lífeyrissjóðum Arion á ný

Kaupþing vill fá lífeyrissjóði til að kaupa hlut í Arion banka áður en bankinn verður skráður á markað á árinu.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Kaupþing hefur boðið lífeyrissjóðum að hefja viðræður á ný um kaup á hlut í Arion banka. Viðræður um kaup lífeyrissjóða á hlut í bankanum sigldu í strand í mars á síðasta ári eftir að Kaupþing seldi fjárfestingabankanum Goldman Sachs og þremur vogunarsjóðum 29% hlut í Arion banka. Kaupendurnir voru allir stórir hluthafar í Kaupþingi.

Kaupþing vill kanna hvort áhugi sé meðal lífeyrissjóðina til að kaupa hlut í Arion banka fyrir skráningu félagsins á markað á árinu. Stefnt hefur verið að því að skrá félagið á markað hér á landi og í Svíþjóð. Kaupþing á 57% hlut í Arion banka í gegnum félagið Kaupskil ehf. Félagið hefur ár til að selja hlutinn í Arion banka, öðrum kosti getur ríkið leyst til sín hluti Kaupskila í bankanum. Þá fær ríkið einnig stærstan hluta af söluverði bankans sem hluta af stöðugleikaframlagi Kaupþings.

Töluverð óánægja var meðal lífeyrissjóðanna með vinnubrögð Kaupþings þegar upp úr viðræðunum slitnaði í fyrra. Skrifað var undir drög að samkomulaginu Kaupþings og erlendu fjármálafyrirtækjanna 12. febrúar 2017, degi áður en ársskýrsla Arion banka fyrir árið 2016 var birt. Viðræðurnar við lífeyrissjóðina héldu hins vegar áfram fram til 19. mars að því er Morgunblaðið greindi frá á sínum tíma. Þá var tilkynnt um kaup erlendu félaganna á hlut í Arion og viðræðunum því slitið í kjölfarið. Auk sölunar fengu Goldman Sachs og vogunarsjóðirnir kauprétt að 22% hlut í bankanum til viðbótar.

Spurning hvað fýlan varir lengi

 „Ég get staðfest að þetta hefur verið orðað við okkur en þetta er á algjöru frumstig og við erum bara rétt að byrja að skoða þetta,“ segir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Hins vegar séu LSR ósátt við framkomu Kaupþings í málinu á síðasta ári. „Það er alveg ljóst að það er ákveðin óánægja hvernig staðið var að þessu síðast,“ segir Haukur.

„Það er spurning hvað menn ætla að vera lengi í fýlu. Við metum þetta bara þegar eitthvað verður sett fyrir okkur til ákvörðunar. Þá metum við það náttúrulega út frá hagsmunum sjóðsins en ekki út frá því hvort að menn hafi verið fúlir síðast,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs.

Fulltrúar annarra lífeyrissjóða sem Viðskiptablaðið hefur rætt við segja áhugi lífeyrissjóðanna sé minni nú en fyrir ári. Bæði séu fjárfestingakostir lífeyrissjóðanna fleiri þar sem búið sé að aflétta gjaldeyrishöftum að fullu og óánægja séu með hvernig staðið hafi verið að viðræðunum af hálfu Kaupþings í fyrra.

Kaupþing bætti tjón vegna síðustu viðræðna

Lífeyrissjóðirnir kröfðust þess síðasta vor að fá bættan kostnað sjóðanna vegna viðræðnanna við Kaupþing, sem fólst bæði í ráðgjöf sérfræðinga og að fé var losað til að geta greitt fyrir hugsanlegt kaupverð. Árni segir lífeyrissjóðina og Kaupþing hafa komist að samkomulagi varðandi útlagðan kostnað lífeyrissjóðanna í viðræðunum en vill ekki fara nánar út í hvað fólst í samkomulaginu.

Í samkomulagi Kaupþings við stjórnvöld vegna stöðugleikaframlaga félagsins var gerður afkomuskiptasamningur vegna sölu á Arion banka sem fól í sér að yrði bankinn seldur á lægri upphæð en 0,8 krónur á hverja krónu af eigið fé hefði ríkið forkaupsrétt á hlutnum. Samkvæmt síðasta uppgjöri Arion banka, sem miðaðist við septemberlok 2017, nemur 57% af eigin fé Arion banka 126 milljörðum króna. Verði kaupverðið 0,8 krónur fyrir hverja krónu af eigin fé er virði hlutarins ríflega hundrað milljarðar króna.

Stefnt var að skráningu Arion banka á markað undir lok síðasta árs en eftir að boðað var til þingkosninga í október var þeim áformum frestað fram yfir áramót.

Í kaupum Goldman Sachs og vogunarsjóðanna á 29% hlut í Arion banka í byrjun síðast árs var miðað við eigið fé Arion banka í 9 mánaða uppgjöri bankans 2016 en ekki ársuppgjör sem birt var degi eftir að gengi var frá drögum að kaupsamningi. Því var lægra verð greitt fyrir hlutinn í bankanum en ef skrifað hefði verið undir kaupsamning degi síðar.

Kvika hefur starfað sem ráðgjafi Kaupþings í tengslum við söluna á Arion banka frá því í desember.