Slitastjórn Kaupþings mun ekki fara fram á það við kröfuhafa bankans að þeir samþykki að afskrifa krónueignir sínar, segir fréttaveitan Bloomberg.

„Slitastjórninni er skylt að varðveita verðmæti eigna Kaupþings,“ sagði Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem er einn af slitastjórninni í samtali við Bloomberg í Lundúnum í síðustu viku. „Að gefinni þessari skyldu slitastjórnarinnar er því erfitt, eða jafnvel ómögulegt, að sjá hvernig slitastjórnin gæti lagt annað eins til við kröfuhafana,“ segir hann.

Stjórnvöld hafa fullyrt að ef mögulegt eigi að vera að aflétta fjármagnshöftum, þá þurfi erlendir krónueigendur að gefa afslátt af eignum sínum.